152. löggjafarþing — 4. fundur,  3. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[22:53]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið, ekki síst þar sem þar var fróðleiksmola að finna um störf þingsins á síðasta kjörtímabili, þar sem ég var annars staðar að gera aðra hluti. Ekki að það komi mér á óvart. Það var orðið algjörlega augljóst. Ég held að allir sérfræðingar landsins, sem gætu mögulega haft einhverja skoðun eða haft eitthvað að segja um stjórnarskrána, hvort sem þeir væru spurðir eða ekki, hafi sagt sína skoðun, hafi greint þetta algerlega í þaula. Það er áhugavert að heyra að það hafi raunverulega verið viðurkennt hér á þinginu að vinnu sérfræðinganna væri lokið. Hversu miklu betur er hægt að varpa ljósi á hversu hrópandi mikil málamyndavitleysa þær eru fullyrðingar um að setja þurfi á fót hóp sérfræðinga — til að gera hvað?

Ég hefði kannski átt að biðja um viðveru hæstv. forsætisráðherra undir þessari umræðu, en líklegast verðum við bara að eiga það samtal síðar, af því að mér leikur forvitni á að vita og ég vil gjarnan heyra svarið. Ég vil gjarnan skilja. Ég tel að til að ná árangri í umræðum og í hverju sem við gerum í lífinu sé mikilvægt að hlusta og skilja afstöðu þeirra sem við teljum okkur ekki skilja.