152. löggjafarþing — 4. fundur,  3. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[22:57]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir að tala hreint út. Það er óþægilegt og vont að finna sig knúinn til að væna fólk um, hvað á ég að segja, óheiðarlegan tilgang og annað en vissulega grunar mann alls konar hluti. Það koma ýmsar hugmyndir upp í kollinn þegar maður fær ekki skýringar á því sem fólk er að hugsa. Þá langar mann auðvitað að spyrja: Af hverju segja þau þetta ekki bara? Af hverju segja þau ekki bara: Nei, við viljum ekki þetta auðlindaákvæði af því að þá missum við fullt af peningum, eða hvernig það er, þá minnkar misskiptingin hérna og hvað það er sem þeim finnst hræðilegt við það — af hverju er ekki bara hægt að segja það? Af hverju er ekki bara hægt að segja: Heyrðu, við tökum þessi drög og ræðum þau en við viljum ekki þetta auðlindaákvæði. Það má ekkert ræða þetta. Það má ekkert tala um þessa stjórnarskrá, þau vilja ekki sjá þetta. Ég hélt þetta í einhvern tíma, en maður vill kannski ekki trúa því ef fólk vill ekki viðurkenna það. En svo eru kannski aðrir hlutir í þessum stjórnarskrárdrögum sem minnka völd þeirra sem völdin hafa og auka völd þeirra sem minni hafa. Það er kannski ekki líklegt til að falla í kramið hjá þeim sem hafa völdin. En ég skil bara ekki hvers vegna það má samt ekki tala um þetta, hvers vegna við getum ekki farið yfir þetta og komist að einhverri niðurstöðu og lagt það að endingu í dóm þjóðarinnar. Ástæðan fyrir því er sennilega sú að fyrir dómi þjóðarinnar myndu þau tapa.