152. löggjafarþing — 5. fundur,  4. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[13:47]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir svarið þó að það sé kannski svona drungi yfir því sem ég deili að vissu leyti með þingmanninum varðandi væntingar til þessarar ríkisstjórnar. Þær litlu væntingar eru vitanlega litaðar af þeim vinnubrögðum sem við höfum séð nú þegar og kannski því misræmi sem er á milli annars vegar stefnuræðu hæstv. forsætisráðherra og síðan þingmálaskrár sem hefur verið lögð fram af hálfu meiri hlutans og þessa frumvarps til fjárlaga.

Þetta atriði varðandi lögfestingu samnings um réttindi fatlaðs fólks er náttúrlega eitthvað sem er búið að vera í bígerð mjög lengi og umræðunni mjög lengi og ég veit ekki um neinn sem hefur lýst yfir einhverri andstöðu við það. Er þá ekki ástæðan fyrir því hvað þetta hefur dregist lengi einfaldlega sú að það er ekki raunverulegur vilji til að gera þær breytingar sem þarf? Það er ekki raunverulegur vilji til þess að tryggja réttindi fatlaðs fólks. Það er ekki raunverulegur vilji til þess að tryggja frelsi fatlaðs fólks og raunverulegar hugarfarsbreytingar og grundvallarbreytingar á því hvernig við nálgumst þessi mál, hvernig við nálgumst fatlað fólk í okkar samfélagi. Er það ekki raunverulega vandamálið? Við erum hérna með ríkisstjórn sem er fyrst og fremst, sem var svo sem vitað fyrir en kemur æ skýrar á daginn, að sameinast um stöðnun. Þetta eru íhaldsflokkar sem fyrst og fremst eru sammála um að það sé dyggð að hafa hlutina bara nákvæmlega eins og þeir hafa alltaf verið.