152. löggjafarþing — 6. fundur,  7. des. 2021.

leiðrétting á kjörum öryrkja.

[13:09]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Eins og kom mjög skýrt fram í fyrra svari mínu er verið að leggja aukna fjármuni til þess verkefnis að bæta kjör örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega. Eins og kom skýrt fram í fyrra svari mínu er það einungis fyrsta skrefið af fleirum og eins og kom skýrt fram: Já, sami söngur en það er vegna þess að verkefnið hefur ekkert farið frá okkur og við megum ekki gefast upp á því verkefni að gera þetta kerfi betra. Við sem höfum tekið þátt í því að samþykkja aukna fjármuni til að bæta kjör örorkulífeyrisþega sjáum líka að kerfið er hlaðið innbyrðis skerðingum sem gerir það að verkum að okkur reynist erfitt að tryggja að stuðningurinn nýtist þar sem hann á best heima. Það er stórt verkefni og ég ætla ekki að falla frá því að eitt mikilvægasta verkefnið sem Alþingi stendur frammi fyrir er að ná samstöðu um miklu réttlátara kerfi. Ég er þess fullviss að við getum það ef við leggjum okkur virkilega fram um að skapa samstöðu um það.