152. löggjafarþing — 6. fundur,  7. des. 2021.

græn orka.

[13:30]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Af málflutningi hans mátti heyra — og mig langar að spyrja hvort það sé ekki rétt skilið — að þessi sala upprunaábyrgða sé á grundvelli þriðja orkupakkans og orkustefnu Evrópusambandsins. Við getum kannski tekið umræðu um þriðja orkupakkann aftur og fjórða orkupakkann líka. Ef fara á í græna atvinnuuppbyggingu, hvernig samræmast þá græn atvinnuuppbygging og græn störf orkustefnu Evrópusambandsins allri þessari sölu á upprunaábyrgðum? Ætlar meiri hlutinn að leggjast gegn því að þessi sala á upprunaábyrgðum fari fram? Ég tek fram að ég tel þetta vera kolólöglega sölu, það er ekki komið fyrir dóm enn þá. Þetta er alla vega í fyrsta skipti sem varan fylgir ekki upprunavottorðinu. Það er verið að selja upprunavottorð en varan fer ekki með. Ég veit að þetta er hundrað prósent skiptanleg vara, en þetta er það sem það er. Og dómari sem myndi dæma þetta löglegt væri alla vega illa tengdur við raunveruleikann því að raforkukerfi Íslands er ekki tengt við raforkukerfi Evrópu. Við setjum ekki straum inn á það, við erum að hjálpa Evrópu að menga.

En spurningin er þessi: Mun þetta leiða til umræðu um þriðja orkupakkann aftur og orkustefnu Evrópusambandsins á Íslandi?