152. löggjafarþing — 7. fundur,  8. des. 2021.

velferð dýra.

15. mál
[16:51]
Horfa

Flm. (Inga Sæland) (Flf):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um velferð dýra, nr. 55/2013, bann við blóðmerahaldi. Með mér á frumvarpinu er allur þingflokkur Flokks fólksins, sem er nú orðinn virkilega stór og kröftugur; Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Eyjólfur Ármannsson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Jakob Frímann Magnússon og Tómas A. Tómasson. Einnig eru með okkur tveir fulltrúar frá Vinstrihreyfingunni – grænu framboði, Jódís Skúladóttir og Orri Páll Jóhannsson. Ég þakka þessu góða fólki fyrir að styðja þetta góða og þarfa mál.

Í frumvarpinu segir í 1. gr., með leyfi forseta:

„Á eftir 2. mgr. 20. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:

Bannað er að taka blóð úr fylfullum merum í þeim tilgangi að selja það eða vinna úr því hormónið PMSG (Pregnant Mare Serum Gonadotropin) eða nokkra aðra vöru til sölu.“

Virðulegi forseti. Ég veit náttúrlega að þingmálið er íslenska en skammstöfunin PMSG stendur fyrir Pregnant Mare Serum Gonadotropin. Ég ætla kannski ekki að fara endilega meira í stafliðina og lagagreinarnar sjálfar, ég ætla að fara heldur í greinargerðina með frumvarpinu. Ég hef áður mælt fyrir þessu máli og geri það nú í breyttu formi. Það var á 151. löggjafarþingi, 543. mál, en náði ekki fram að ganga. Ég legg það nú fram með örlítið breyttu sniði.

Lög um velferð dýra hafa það að markmiði að stuðla að velferð þeirra, að þau séu laus við — og hlustið nú vel á það sem stendur í lögum um dýravelferð með tilliti til þess hverjir munu hugsanlega koma hér sem hagsmunaaðilar þeirra sem verja þetta dýraníð — þau séu laus við vanlíðan, einnig að þau séu laus við ótta, þau séu laus við þjáningu, þau séu laus við sársauka, meiðsli eða sjúkdóma. Allt er þetta gert í ljósi þess að dýr eru skyni gæddar verur. Enn fremur er það markmið laganna að dýr geti sýnt sitt eðlilega atferli eins og frekast er unnt.

Á Íslandi er stunduð blóðtaka úr fylfullum merum í því skyni að vinna úr blóðinu hormónið PMSG, sem selt er til líftæknifyrirtækja svo að framleiða megi frjósemislyf, aðallega fyrir svínarækt. Sem sagt, svo að við getum étið meira svínakjöt, framleitt meira svínakjöt með því að koma hormóni í gylturnar og rugla svona aðeins í þeirri lífkeðju líka í leiðinni. Við erum að dæla þessu vaxtarhormóni úr hryssunum í átta vikur í senn, einu sinni í viku, hormóni sem verður til í merinni til þess að þroska folaldið sem hún gengur með.

Nú eru 119 bændur á Íslandi með 5.383 blóðmerar og hefur blóðmerahald aukist til muna hér á landi að undanförnu. Blóðmerar eru látnar ganga með folöld eins oft og mögulegt er til að hámarka afköst hverrar merar, þar til hormónið finnst ekki lengur í blóði hennar, þá eru þær sennilega orðnar það gamlar og lúnar á öllu þessu að það er ekkert annað að gera en að slátra þeim. Folöldunum er eðli málsins samkvæmt að jafnaði slátrað líka.

Á Íslandi sæta fylfullar merar mismiklu og misgrófu ofbeldi við blóðtöku þegar verið er að ná úr þeim hormóninu PMSG. Það má glögglega sjá í heimildarmyndinni Ísland – land 5.000 blóðmera sem var frumsýnd 22. nóvember 2021 og vakti sterk viðbrögð og mikla reiði um allan heim. Í myndinni er fjallað um blóðmerahald á Íslandi þar sem greinilega kemur í ljós sú illa meðferð, misþyrming og dýraníð sem hryssurnar þurfa að sæta við blóðtökuna. Í myndinni eru færð rök fyrir því að ætla megi að slíkt harðræði tíðkist almennt við blóðtökuna hér á landi.

Hver skyldu nú rökin vera fyrir því að ætla megi að slíkt harðræði almennt sé viðhaft? Það er vegna þess að það þarf að gera það. Hér er um að ræða villt dýr, villtar hryssur, ótamdar hryssur. Hvernig í ósköpunum er hægt að troða þeim inn í þetta grindverk sem þarf að draga þær inn í til þess að dæla úr þeim blóði öðruvísi en með einhverjum þvingunaraðgerðum? Hvernig getur nokkur komið fram og sagt að það sé bara allt í lagi að gera þetta mannúðlega þegar vitað er að það þarf að binda upp hausinn á hryssunum, þvinga upp höfuðið á þeim til að ná í bláæðina á hálsinum til að dæla úr þeim þessum fimm lítrum af blóði sem er gert einu sinni í viku í átta vikur á ári hverju? Það er nöturlegt ef nokkrum manni detti það í hug að kalla það ekki að dýrinu líði illa, dýrið sé skelfingu lostið af hræðslu og ótta og vanlíðan, að hér sé verið að brjóta dýraverndarlöggjöfina blákalt fyrir framan alla sem sjá vilja.

Þetta gengur það langt að Evrópuþingið hefur skorað á bæði framkvæmdastjórn Evrópusambandsins og aðildarríki þess að hætta innflutningi og framleiðslu á PMSG-hormóni. Áskorun þingsins til aðildarríkja ESB er í raun einnig beint til Íslands. Við erum jú aðilar að EES-samningnum um hið Evrópska efnahagssvæði. Ef framkvæmdastjórnin grípur til aðgerða til að framfylgja ályktun Evrópuþingsins, sem felur í sér bann við blóðmerahaldi í Evrópu, liggur ljóst fyrir að slíkt bann mun ná til Íslands á grundvelli EES-samningsins.

Ísland er líklega eini framleiðandi PMSG í Evrópu. Af hverju segi ég líklega? Jú, vegna þess að í Þýskalandi hefur þessi blóðmeraiðnaður einnig verið iðkaður. Þar er ekkert bann við blóðmerahaldi en hins vegar hefur það komið fram að bændum sem hafa stundað þessa iðju hefur ekki bara fækkað heldur eru þeir hættir og mér skilst samkvæmt upplýsingum, ég hef nú ekki sjálf heimsótt þýska bændur til að tékka á því og athuga það neitt betur, en samkvæmt upplýsingum dýravelferðarsamtaka sem ég hef verið í sambandi við þá hætti síðasti blóðmerabóndinn í Þýskalandi á síðastliðnu ári. Þannig að eftir stöndum við ein í Evrópu ef þetta reynist rétt.

Það vekur í rauninni furðu að slík starfsemi sé látin viðgangast hér á landi og hún sé jafn gríðarleg sem raun ber vitni. Umfangið er með hreinum ólíkindum. Mig langar að geta þess í leiðinni að nú hefur fyrirtækið Ísteka sótt um að þrefalda umsvifin, sótt um að dæla 600.000 lítrum af blóði árlega úr þessum fylfullu merum. Ef maður reiknar þetta svona þokkalega og leggur saman tvo og tvo þá er ekki verið að tala um ríflega 5.000 merar til iðjunnar heldur 15.000. Svo margar þurfa þær að verða til að ná 600.000 lítrum af blóði. Fyrir hvað? Til þess að geta étið meira svínakjöt og til þess að einhverjir örfáir aðilar geti safnað auð með augun rauð.

Mig langar að nefna það að Íslandsstofa sem hefur verið að eyða milljörðum á milljarða ofan á undangengnum árum til að kynna land okkar og þjóð á erlendri grundu, til að laða að erlenda ferðamenn og til að sýna fallega ásjónu landsins okkar, hefur á síðustu árum verið í sérstöku markaðsátaki til að kynna íslenska hestinn, kynna okkar þarfasta og dyggasta þjón hér á árum áður, á erlendri grundu. Átakið felst í því að íslenski hesturinn verði þekktur á heimsvísu sem reiðhesturinn með góða geðslagið, sá sem færir fólk nær náttúrunni. Markmiðið með átakinu er að auka verðmætasköpun sem byggist á íslenska hestinum, styrkja ímynd hans í vitund fólks um heim allan og markaðssetja vörumerkið Horses of Iceland. Á síðustu þremur árum hefur verið slegið nýtt Íslandsmet í útflutningi og sölu á íslenska hestinum þannig að það gríðarlega markaðsátak sem Íslandsstofa hefur ráðist í hefur skilað okkur alveg ótrúlega miklum og góðum og jákvæðum árangri. Núna þriðja árið í röð var slegið Íslandsmet í sölu á íslenska hestinum.

Ég vil líka benda á það að þúsundir og aftur þúsundir íslenskra hestamanna hafa haft samband og styðja bann við blóðmerahaldi. Landssamband hestamanna, Landssamband tamningamanna — allir hestamenn sem láta sér þykja vænt um hestinn sinn, um íslenska hestinn, fordæma þessa iðju. Þeir hreinlega fordæma hana. Sú ásýnd sem við erum að skapa okkur á erlendri grund mun valda okkur óafturkræfu tjóni ef við reynum ekki að taka á þessu núna og sýnum ábyrgð og snúum af villunni sem við höfum verið í. Það virðist vera af öllum viðbrögðum úti í samfélaginu að fæstir hafi raunverulega gert sér í hugarlund hversu ósmekklegur og ógeðslegur þessi iðnaður er.

Það er ljóst að gildandi réttur er langt frá því að vernda fylfullar merar gegn því ofbeldi og þeirri illu meðferð sem felst í blóðmerahaldi. Við flutningsmenn teljum enga spurningu og engan vafa leika á því að löggjafinn verður að grípa til aðgerða og það strax og banna þessa iðju með öllu. Við leggjum einnig til í frumvarpinu að brot gegn því banni varði refsingu samkvæmt 1. mgr. 45. gr. Þá er einnig lagt til að 6. mgr. 45. gr., sem kveður á um að brot gegn velferð dýra skuli aðeins sæta rannsókn lögreglu að undangenginni kæru Matvælastofnunar, verði felld brott.

Það hlýtur náttúrlega að heyra til undantekninga að svona lagað skuli rata inn í löggjöf, að ein stofnun sem hefur nú verið frekar mistæk í störfum sínum, vil ég leyfa mér að segja, að það skuli vera eingöngu í hennar valdi að kæra dýraníð eða illa meðferð á dýrum. Hvers vegna í ósköpunum skyldi mér ekki að vera heimilt að kæra til lögreglu illa meðferð á dýri ef ég verð vitni að því? Hvers vegna skyldi ég þurfa að hringja í MAST? Ég næ því ekki. Þetta var því algerlega nauðsynlegur liður í frumvarpið.

Mig langar að benda á að núna rétt fyrir hádegi barst okkur þingmönnum tilkynning frá Ísteka, líftæknifyrirtækinu, sem segist vera að rifta samningum við bændur vegna ólíðandi meðferðar hrossa. Það er athyglivert. Það er athyglivert þar sem forstjóri þess er nú einn af þeim sem sést í mynd í dýraníðsmyndinni, sem hefur farið eins og eldur í sinu um heimsbyggðina, þar sem hann er að reyna að beina þeim sem koma þarna að frá vettvangi. Það er í rauninni ástæða til að benda á það líka að Ísteka talar um að þetta sé ólíðandi meðferð á hrossum og, með leyfi forseta, ætla ég að vitna beint í þennan póst:

„Þessi meðferð er augljóslega brot á velferðarsamningum fyrirtækisins og viðkomandi bænda. Samningum við þá hefur því verið rift. Á árinu 2021 hefur líftæknifyrirtækið Ísteka átt í samstarfi við 119 bændur um blóðgjafir hryssa til lyfjaframleiðslu.“ — Ég vil bæta því við að þessi lyfjaframleiðsla er umtalað hormón til að auka svínakjötsrækt. — „Gerðir eru bæði viðskiptasamningar og sérstakir velferðarsamningar við þá alla. Blóðgjöf til lyfjaframleiðslu er eina búgreinin á Íslandi þar sem slíkir samningar eru regla. Reynslan sýnir að bændur vinna almennt samkvæmt þeim. Allar blóðgjafir eru framkvæmdar af dýralæknum og starfsemin er undir eftirliti …“

Hérna lýk ég þessari tilvitnun því ég ætla að grípa þetta á lofti. Hvernig, virðulegi forseti, á maður mögulega að geta skilið svona, að senda þingheimi öllum þessi ósannindi? Það er ósatt að það séu dýralæknar sem í hverri viku taki blóð úr 5.300 merum. Það er ekki einu sinni til svo margir dýralæknir í landinu að geta fylgt því eftir. Þetta eru hrein og klár ósannindi. Ég lýsi furðu minni á því að standa hér sem kjörinn fulltrúi þjóðarinnar og vera að taka á móti svona pósti. Þetta er allt líka undir eftirliti Matvælastofnunar og fyrirtækisins sjálfs þar sem starfar sérstakur dýravelferðarfulltrúi, segir hér, og rannsóknir sýni að hryssunum verður ekki meint af blóðgjöfinni. Ég spyr bara: Hvað með folöldin sem fá ekki vaxtarhormón á meðan þau eru að vaxa í móðurkviði? Hvað með þau? Nei, virðulegi forseti, að sjálfsögðu skipta þau engu máli. Ekki samkvæmt þessari löggjöf og þeirri heimild sem þetta dýraníð byggir á.

Með leyfi forseta, ætla ég að halda áfram að vitna beinustu leið í þennan póst sem ég fékk frá forstjóra Ísteka núna rétt fyrir hádegi ásamt, held ég, öllum þingmönnum:

„En þrátt fyrir að regluverk um blóðgjafir sé strangt og eftirlit mjög mikið er ljóst að óviðeigandi frávik geta komið upp. Slíkt er ekki liðið af hálfu Ísteka og samningum við bændur er rift ef ekki er staðið við þá.“

Þetta minnir mig eiginlega á ópíóíðana. Þegar kemur upp sú staða að fyrirtæki sem framleiðir ópíóíða er fordæmt fyrir það að unga fólkið deyr unnvörpum úti um alla Evrópu og í Bandaríkjunum úti um allt af ofneyslu ópíóíða, hvað sagði þá lyfjafyrirtækið? Jú, við sem höfum fylgt öllum ströngustu reglum og við sem erum að vanda okkur ætlum að gera allt það besta og við ætlum að koma í veg fyrir að unga fólkið ánetjist þessu og við ætlum að gera allt, allt, allt og hætta að reyna að selja þetta öllum sem éta vilja, hvernig sem það fer með þá.

Áfram held ég, virðulegi forseti:

„Að auki hefur Ísteka ákveðið að ráðast í umfangsmiklar umbætur á eftirliti fyrirtækisins með blóðgjöfum sem unnin er í nánu samstarfi við sérfræðinga á sviði búfjárhalds og dýravelferðar.“ — Þvílík froða, virðulegi forseti, með fullri virðingu. — „Meginatriði þeirrar umbótaáætlunar felast meðal annars í eftirfarandi: Aukinni fræðslu og þjálfun fyrir samstarfsbændur. Fjölgun velferðareftirlitsmanna sem framvegis verða viðstaddir allar blóðgjafir.“

En nú vitum við náttúrlega að það er búið að segja áður að það séu jú dýralæknar sem taki blóð úr öllum merunum, sem ég segi að sé ósatt, en allt í einu er það ekki nóg, nú eru komnir einhverjir velferðareftirlitsmenn í ofanálag. Þetta er athyglivert. Síðan verði myndavélaeftirlit með öllu saman, segir hér.

Virðulegi forseti. Það er aðeins eitt sem hægt er að gera, það er að banna blóðmerahald með öllu og þeir bændur sem verða af framfærslu vegna þess þurfa að fá það bætt. Það er okkar hér að beina þeim eitthvert annað en þangað sem Ísteka vill beina þeim, í áframhaldandi blóðmerahald. Við eigum að beina þeim eitthvert annað, aðstoða þá við sjálfbærni, aðstoða þá við að virkja sveitina, búa í sveitinni, hvort heldur sem það er með því, eins og við höfum margoft talað um hér á þingi og hefur ekki enn orðið að veruleika en verður vonandi á þessu þingi, að við aðstoðum bændur við að hafa það ódýra orku að þeir geti framleitt og gert okkur sjálfbær í framleiðslu á grænmeti og ávöxtum. Þá verðum við að vísu að byrja á því, virðulegi forseti, að koma dreifikerfinu í lag því að nóg er til af rafmagninu. Það vantar hins vegar að koma því til neytenda sem er allt önnur saga.

Ég held ég hafi farið vítt og breitt yfir það sem mér liggur á hjarta. Ég vil bara þakka öllu því góða fólki og öllum þeim dýravinum sem hafa hvatt mig áfram, bæði erlendis og hérlendis. Mig langar til að nefna það að ég heyrði af fullorðnum manni í gær — og einhver sagði við mig, sem ég ætla ekki að nefna hér, að það eina sem væri ekki alveg 100% við hann væri að hann kysi Sjálfstæðisflokkinn. Ég var nú ekki alveg sammála að hann gæti ekki verið fullkominn fyrir það, ég kann mjög vel við marga Sjálfstæðisflokksmenn, þótt ég hafi á tilfinningunni að það séu þeir sem ætli að verja dýraníð Ísteka. Ég hef það einhvern veginn á tilfinningunni, en kannski er það bara mín tilfinning. En þetta var fullorðinn maður sem sagði að hann áttaði sig ekki á því fyrr en hann var búinn að horfa á þessa andstyggðarmynd að hann var tárvotur. Aldrei bjóst ég við því, sagði hann, að ég færi að gráta yfir þvílíku og öðru eins og aldrei bjóst ég við því að svona væri Ísland í dag, við bærum ekki meiri virðingu fyrir málleysingjum og þeim sem væru háðir okkur en svo að við létum viðgangast annað eins dýraníð.

Við fengum umsagnir um málið sem ég mælti hér fyrir 16. mars sl., umsagnir sem áttu það sammerkt að vera frá hagsmunaaðilum sem gerðu lítið úr málinu á þeim tíma, enda þessi mynd ekki komin fram. Þeir gerðu ekki bara lítið úr málinu heldur létu í það skína að maður væri hálfgerður álfur út úr hól og hefði ekki hugmynd um hvað maður væri að tala. Ég bíð eftir að sjá umsagnirnar frá þeim núna. Ég kalla þetta metoo-bylgju íslensku hryssunnar og ég get ekki betur séð en að þjóðin sé mér sammála. Núna eftir að málið fer til nefndar þá segi ég bara við alla: Sendið inn umsagnir, umsagnir til atvinnuveganefndar þegar við óskum eftir umsögnum. Sendið umsagnir til umhverfisnefndar þar sem fyrir liggur ósk um að fá að þrefalda þennan blóðmeraiðnað frá því sem nú er. Sýnum úr hverju við erum gerð. Við erum dýravinir að upplagi og ég trúi ekki öðru en að það séu flestir þingmenn.