152. löggjafarþing — 7. fundur,  8. des. 2021.

velferð dýra.

15. mál
[17:21]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við erum að ræða frumvarp til laga um breytingu á lögum um velferð dýra, bann við blóðmerahaldi. Ég er einn af þeim sem er stoltur á þessu frumvarpi. Að níðast á einu dýri til þess að níðast á öðru dýri hlýtur að vera það ömurlegasta sem til er. Og ef við förum að hugsa út í hvers vegna er verið að níðast á einu dýri til að níðast á öðru dýri og í hvaða aðstæðum það er gert hlýtur okkur blöskra og við hljótum að gera kröfu um að þessu verði hætt strax.

Fylfull meri með folaldi: Fimm lítrar af blóði allt að fimm sinnum, (Gripið fram í: Átta sinnum.) átta sinnum þegar verst lætur, það er enn þá verra, sem hlýtur að segja okkur að þessar blóðmerasugur eru ekki eðlilegar. Þetta er ekkert annað en slæmt og hryllilegt níð. Gleymið því ekki að þetta er meri með folaldi, hún er með annað lifandi dýr inni í sér. Og tilgangurinn með því að ná þessu hormóni er að níðast á næsta dýri, gyltu, til að gera hana tilbúna til að eignast grísi löngu áður en hún á að vera tilbúin til þess og svo að hún framleiði enn þá fleiri. Það er svo ótrúlegt að þetta skuli viðgangast. Það sem hefur kannski slegið mig mest er að þegar maður ræðir þetta við fólk úti í bæ hristir það hausinn, það segir að þetta geti ekki átt sér stað, að við getum ekki verið svona ill, að við getum ekki hafa búið til svona iðnað. En staðreyndin kom fram og sýndi sig í þætti sem var sýndur hér fyrir stuttu.

Svona iðnaðar er stundaður í ríkjum í Suður-Ameríku og lýsingarnar á því hvernig þessi iðnaður er þar eru enn þá hryllilegri. Það er svo hryllilegt að það er ekki einu sinni hafandi eftir hvernig þau fara að þar. Ég mun ekki hafa það eftir hér í þessum ræðustól vegna þess að mér blöskraði. Ég hélt að maður gæti stundum orðið orðlaus en þarna er komið langt út fyrir allt siðferði. Að það skuli vera ríki hér og iðnaður sem er tilbúinn að kaupa þessa afurð dýrum dómi veldur mér mikilli furðu. Við erum að tala dýr sem við höfum kallað þarfasta þjóninn, dýr sem við höfum verið með frá landnámi og einhvern veginn öllum getur þótt vænt um, dýr sem ég ólst upp með í sveit frá sex ára aldri alveg upp undir 15, 16 ára aldur. Aldrei hefði mér nokkurn tíma dottið í hug, ekki eina sekúndu, að það væri möguleiki að einhver gæti farið út í þennan iðnað. Og það sem við heyrum hér, það sem er verið að tala um, hvort hægt sé að gera þetta fallega: Það er ekkert fallegt við þetta og það er ekki hægt að gera þetta fallega. Dýrin eru skelfingu lostin.

Við mannskepnan getum tekið ákvörðun um að gefa blóð, það er eitt, en okkur yrði ekki leyft að gera neitt í líkingu við þetta. Það yrði allt brjálað yfir því. Þess vegna verðum við að stoppa þetta. Það er útilokað að beita þeirri aðferð að binda upp höfuðið á dýrinu til að þvinga nál í hálsinn á því til að ná út blóði. Og í þeim eina tilgangi að níðast svo á öðru dýri, til þess að auka hvað? Framleiðslu? Og það sem er rúsínan í pylsuendanum á þessu öllu, þessari ótrúlegu blóðsugu — hvað á maður að kalla þetta? Gróði. Hvar er siðferðið? Er í lagi græða eina milljón, 100 milljónir, hundruð milljóna, milljarða á eymd þessara dýra? Ég segi nei.

Og það sem er kannski furðulegast við þetta er að þeir sem eru plataðir út í þetta, bændur, fá minnst. Það virðast vera tveir, þrír, fjórir einstaklingar sem taka allan gróðann. Og þeir berjast með kjafti og klóm til að fá að halda þessu áfram. En við eigum að hjálpa bændum sem hafa einhvern veginn villst af veg og telja sig nauðsynlega þurfa að fara út í þennan iðnað. Ég trúi ekki öðru en að ef þessir bændur gætu farið í annað og fengið sömu tekjur fyrir það myndu þeir fara á stundinni. Ég efast ekki um það. Ég efast ekki um að nokkur bóndi — ég var í sveit í fjölda ára og ég varð aldrei var við að bændur stæðu í því að níðast á dýrunum sínum og ég trúi því ekki fyrr en á reynir að þeir bændur sem núna stunda þennan iðnað væru ekki tilbúnir að hætta því á stundinni ef þeir hefðu vilyrði fyrir því að það myndi ekki valda þeim fjárhagslegu tjóni. Og ef við tökum tjón þeirra saman í því samhengi þá er ég viss um að það er ekki nema brotabrot af þeim gígantíska gróða fyrirtækisins sem framleiðir þetta hormón.

Ég ætlaði ekki að hafa mikla og langa ræðu um þetta en ég segi bara eins og er að dýravinum, og ég er alveg sannfærður um að stór hluti þjóðarinnar eru dýravinir, muni blöskra þetta. Ég trúi ekki öðru en að þau muni styðja að séð verði til þess í eitt skipti fyrir öll að við hættum þessu. Við eigum að sýna þann manndóm að hætta þessu núna, áður en Evrópusambandið þvingar okkur til að hætta því. Þetta var stundað, að ég veit, í fleiri löndum, á Norðurlöndum og í Þýskalandi, en þau hættu þessu. Þau þróuðust, þau hættu að níðast á dýrum til að níðast á öðrum dýrum.

Við eigum að sjá til þess í eitt skipti fyrir öll að séð verði til þess að þeir blóðpeningar sem skila sér núna í ótrúlegum gróða, ég hef séð allt upp á 1,7 milljarða kr. á fjórum árum, verði ekki meiri, að það verði ekki aukning á því. Ég hefði helst viljað að við hefðum getað náð í þessa blóðpeninga og notað þá til að koma í veg fyrir þennan iðnað og stoppa hann. Það væri það besta ef það væri hægt en það er því miður sennilega ekki hægt. En okkur ber skylda til að stöðva þetta, okkur ber skylda til að vernda dýrin. Það er ekki á okkar færi og á ekki að vera það að standa hlutlaus hjá þegar við vitum, erum búin að fá að sjá það og getum séð það strax á netinu hvaða aðferðum er beitt. Þó að þær séu ófagrar eru notaðar enn þá verri aðferðir annars staðar. Það gerir okkur ekki betri að aðrir séu verri og það er engin afsökun þó að einhverjir reyni og ætli sér virkilega og vilji gera þetta vel. Það er ekki hægt. Þetta verður alltaf maðurinn að níðast á dýrinu til að ná í blóð til að framleiða blóðpeninga. Og við skulum stoppa það.