152. löggjafarþing — 7. fundur,  8. des. 2021.

velferð dýra.

15. mál
[17:53]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka framsögumanni fyrir góða framsögu hér áðan. Ég er einn af meðflutningsmönnum þessa frumvarps, stoltur meðflutningsmaður á þessu frumvarpi. Í 1. gr. frumvarpsins segir: Bannað er að taka blóð úr fylfullum merum í þeim tilgangi að selja það eða vinna úr því hormónið PMSG eða nokkra aðra vöru til sölu. Það kom ræðumaður áðan og spurði: Hvað með folöldin? Já, hvað með þau? Þarna er verið að taka blóð og vaxtarhormón úr fylfullum merum. Hvaða áhrif ætli það hafi á folöldin? Við skulum spyrja okkur að því. Mín skoðun er sú að jú, það er ill meðferð þegar verið að gera þetta, að sjálfsögðu, það er verið að taka vaxtarhormón úr fylfullum merum og við getum ímyndað okkur áhrifin sem það hefur á folaldið í fylfullri merinni, hún er ekki enn þá búin að kasta. Það að taka blóð úr fylfullum merum er dýraníð í sjálfu sér, það er siðferðislega ámælisvert. Það er það sem er. Meðferðin mun ekki bæta þar úr. Út á það gengur þetta frumvarp.

Ég vil líka benda á að þetta er ekki mál þar sem hægt er að segja: Jú, það kom upp dæmi, það var tekin upp bíómynd sem sýndi að þetta var dýraníð, en það breytir ekki starfseminni sjálfri sem fer fram. Af hverju er það? Ég er þegar búinn að benda á það að þetta eru fylfullar merar og um það snýst þetta. Það er verið að taka hormónið og við getum rétt ímyndað okkur hvernig folaldið lítur út. Og ég ætla bara að vona að fjölmiðlar fjalli um það, satt að segja, hvernig folöldin líta út þegar merarnar loksins kasta. Það verður saga til næsta bæjar. Svo er líka verið að tala um að þetta sé atvinnustarfsemi. Málið er að hér eiga í hlut 119 bændur og það eru 207 milljónir upp í 300 milljónir sem þeir fá á ári fyrir þetta, að því er ég veit best. Það liggur ekkert fyrir um að þetta séu bændur í fullu starfi, þetta eru villtar merar sem verið er að taka blóð úr og vinna við villtar merar er varla hundrað prósent vinna á býlunum. Þetta er á landsbyggðinni, að sjálfsögðu, og þetta sýnir svolítið stöðu landsbyggðarinnar, að þessi atvinnustarfsemi skuli eiga sér stað þar.

Hvaða þjóðir stunda þetta? Nú er blóðmerahald ekki stundað í Evrópu að því er ég best veit. Þetta var stundað í Suður-Þýskalandi, á einu búi sem ég hef heyrt um, það hætti strax. Jú, við erum í hópi með eftirtöldum ríkjum: Úrúgvæ, Argentínu, Rússlandi, Mongólíu, Kína. Ísland er eitt ríkasta samfélag heims, við erum í sjötta sæti hjá OECD, klúbbi ríkra þjóða. Ekkert af þeim stundar þessa starfsemi, ekkert. Það sýnir stöðu landsbyggðarinnar og það að bændur á Íslandi þurfi að vera í þessu, það gengur ekki. Alþingi Íslendinga á að banna þessa starfsemi og að sjálfsögðu þarf þá að greiða þeim sem stunda slíkan búskap og tapa þá atvinnutekjum, það þarf að bæta þeim það. Það má gera með ákveðinni málsmeðferð í ákveðnu ferli og þá kannski á nokkrum árum. En þetta eru smápeningar í heildarmyndinni sem hér er undir.

Evrópuþingið skoraði 20. október á framkvæmdastjórn Evrópusambandsins og aðildarríkja þess að hætta innflutningi og framleiðslu á PMSG-hormóninu. Áskorunin nær einnig til aðildarríkja ESB þannig að hún nær raunverulega til Íslands. Af hverju? Af því að þetta er vara á Evrópska efnahagssvæðinu, þetta hormón er vara sem er seld á Evrópska efnahagssvæðinu þannig að áskorun Evrópuþingsins um að hætta þessari starfsemi nær einnig til Íslands. Löggjöf innan Evrópusambandsins byrjar yfirleitt eða mjög oft hjá Evrópuþinginu. Það skorar á framkvæmdastjórnina að gera eitthvað, eins og hér, að hætta innflutningi og framleiðslu á hormóninu. Þannig byrjar löggjöfin. Svo kemur framkvæmdastjórnin með frumvarp, tilskipun eða reglugerð sem verður að lögum innan sambandsins. Þetta er það sem er í gangi úti í Evrópu. Á sama tíma eru fyrirætlanir hér um að þrefalda framleiðsluna, fara upp í 600.000 lítra og fara úr 5.000 merum upp í 15.000 merar. Ísland er að fara í algjörlega þveröfuga átt við það sem ákall Evrópuþingsins kveður á um. Það er náttúrlega algerlega galið. Það má sjá fyrir sér að innan fárra ára verði þessi starfsemi bönnuð innan Evrópusambandsins. Og hvað ætlar Ísland að gera? Ætlum við eina ferðina enn að vera á eftir bylgjunni? Í staðinn fyrir að banna þetta núna og vera búin að afgreiða málið áður en tilskipunin kemur að utan inn í sameiginlegu nefndina, inn í utanríkismálanefnd og síðan hingað inn þar sem þetta verður bannað? Það er miklu betra að banna þetta og málið er búið. Þá sýnum við alla vega smásjálfstæði í staðinn fyrir að við fáum málið inn á grundvelli stjórnskipulega fyrirvarans og við neyðumst til að banna þetta, neyðumst til að segja já. Á sama tíma hefur meiri hluti þingheims sagt nei nokkrum árum áður, kannski tveimur árum áður. Það er algjör synd. Ég vona að ég verði þingmaður hér þegar þetta bann kemur til samþykktar, þá skal ég minna á það að við í Flokki fólksins höfum tvisvar sinnum lagt fram frumvarp þessa efnis og meiri hluti þingsins, sama þings, sömu þingmenn hafi þá sagt þá nei. Það verður gaman að sjá hvernig stjórnskipulegi fyrirvarinn verður notaður. Það mun ekki verða kjarkur hér inni á nokkurn hátt, ekki frekar en í þriðja orkupakkanum, til að segja nei. Ég ætla ekki að fjalla meira um það mál hér.

Annað sem er mjög mikilvægt atriði í þessu er ímynd landsins. Það er næstum ekki hægt að tala um það ógrátandi. Á undanförnum sex árum hefur Íslandsstofa verið í sérstöku markaðsátaki til að kynna íslenska reiðhestinn á erlendri grundu. Sú kynning er með þeim hætti að hesturinn færi fólk nær náttúrunni og markmiðið er að auka verðmætasköpun sem byggist á íslenska hestinum, styrkja ímynd hans í vitund fólks um heim allan og markaðssetja vörumerkið Horses of Iceland. Ég tók einu sinni kúrs í markaðsfræði og ég veit ekki um neina starfsemi sem myndi skaða meira vörumerkið Horses of Iceland eða umrætt markaðsátak og stöðu íslenska hestsins í heiminum, sem er algjörlega einstök af öllum hestum í heiminum. Við getum farið til Þýskalands, Bandaríkjanna eða Skandinavíu. Ég hef nú verið í Skandinavíu, búið í Noregi og þar er Islandshesten algjörlega uppi á stalli. Það að fólk úti í heimi skuli þurfa að fá fréttir af því sem verið er að gera við íslenska hestinn, fylfullar merar, er með hreinum ólíkindum. Tjónið sem hlýst af þessu er svo miklu meira en þessar 207 milljónir sem bændur fá, sem búa vonandi allir á landsbyggðinni, heldur en nokkurn tímann tekjurnar sem er af þessu. Við erum að setja þetta í ballans við þessar tekjur, skaðann á ímyndinni og ég tala nú ekki um hversu siðferðislega ámælisvert þetta er og hversu mikið dýraníð þetta er á hinum fylfullu merum. Það er grundvallaratriði.

Viðbrögðin sem við í Flokki fólksins höfum fengið eru hreint ótrúleg. Það eru miklar og heitar tilfinningar í þessu máli og skal engan undra. Sú kvikmynd sem sýndi hvernig þetta var — það kom fram hér áðan að þetta ætti að vera fyrir opnum tjöldum. Maður sá nú bara að fólkið sem var á leiðinni þangað sem verið var að taka blóðið, það var bara stoppað, það mátti ekki einu sinni koma nálægt þessu. Það átti að gera þetta í skjóli nætur og það sýnir bara hvernig fólkið sem er að vinna við þetta lítur á þetta, svo ekki sé meira sagt.

Mig langar líka að benda á það varðandi folaldið að þetta er ekki ræktun, þetta er tiltölulega nýleg starfsemi. Íslenski hesturinn hefur verið notaður sem reiðhestur gegnum aldirnar frá landnámi, þarfasti þjónninn. Hér er um að ræða tiltölulega nýja starfsemi sem er eiginlega eingöngu stunduð í þriðja heiminum. Við sem rík þjóð — þetta á ekkert heima hérna, ekki á nokkurn einasta hátt.

Varðandi alþjóðasamfélagið og íslenska hestinn erlendis þá held ég hér á blaði sem er frá International Federation of Icelandic Horse Association, þ.e. alþjóðasamtökum hestamannafélaga íslenska hestsins í heiminum. Þau fordæma þessa blóðtöku, blóðmerahald, og styðja það algerlega að sett verði lög sem banna þetta. Það er enginn stuðningur fyrir þessu hjá alþjóðasamtökum hestamannafélaga í heiminum þegar kemur að íslenska hestinum. Hesturinn er fyrst og fremst reiðhestur á Íslandi.

Varðandi dýravernd og dýraníð er þetta spurning um það hvernig við sem þjóð lítum á dýravernd. Þetta er grundvallaratriði. Þetta er dýraverndarmál. Hver er staða dýraverndar í íslensku samfélagi? Ætlum við sem eitt ríkasta samfélag heims að segja: Jú, þetta er bara allt í lagi af því að það er smáaur í þessu? Það eru 207 milljónir til 119 bænda og svo eru tekjur Ísteka, 1,7 milljarðar, skilst mér, og það á að fara að þrefalda öll ósköpin. Ég trúi ekki öðru en að Alþingi Íslendinga geti bannað þetta og stutt bændurna sem þetta stunda, greitt þeim bætur þannig að þeir geti farið út í aðra starfsemi, ræktað reiðhesta eða stundað annan landbúnað í héruðunum þar sem þetta er stundað. Það er grundvallaratriði. Það sýnir líka stöðu landsbyggðarinnar í dag að við erum í hópi með þessum ríkjum sem ég taldi upp áðan og það er algerlega óásættanlegt. Ég ætla ekki að fara að tala meira um stöðu landsbyggðarinnar, ég gæti haldið langa ræðu um það. Það breytir því ekki að búsetuskilyrði og lífskjör á landsbyggðinni eru önnur en hér í Reykjavík og á höfuðborgarsvæðinu.

Þetta mál lýtur einnig að því hvernig við viljum líta á okkur í alþjóðasamfélaginu þegar kemur að dýravernd. Þetta eru spurningar sem við þurfum að svara hér með þessu frumvarpi, þetta er spurning sem allir þingmenn þurfa að svara í raun, það gengur ekki að eftir tvö ár eða fjögur ár komi tilskipun frá Evrópusambandinu um að það eigi að banna þetta og allir segja já og enginn hafi skoðanir á þessu, þetta renni bara í gegnum þingið. Það er mjög mikilvægt að þeir þingmenn sem eru á móti þessu máli stígi fram og færi rök fyrir máli sínu. Það er algerlega ómögulegt að þetta verði svæft í þingnefnd og enginn viti raunverulega hver var á móti þessu og hver var með þessu frumvarpi.

Þetta frumvarp til laga er til að svara þessum spurningum, hvernig við lítum á okkur sem þjóð, hvernig við lítum á okkur sem dýraverndarríki og landbúnaðarsamfélag, matvælaþjóð og að hesturinn haldi þeirri stöðu sem hann hefur haldið í gegnum árin og síðan er það markaðsátakið, hvernig ímynd íslenska hestsins í heiminum er og Íslands út á við, ekki eingöngu íslenska hestsins. Þetta hefur skaðað Ísland á svo margan hátt, íslenska hestinn, samfélagið og ferðaþjónustuna, og það verður að stoppa þetta sem allra fyrst.