152. löggjafarþing — 7. fundur,  8. des. 2021.

velferð dýra.

15. mál
[18:19]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S):

Forseti. Mig langar að blanda mér í umræðu um þetta frumvarp sem er lagt fram í dag. Hér er rætt um bann við blóðtöku úr fylfullum merum, sem sagt bann við ákveðinni búgrein. Framsögumaður hélt því skörulega fram í framsöguræðu sinni og lét þau orð falla að þeir sem myndu mæla gegn þessu frumvarpi væru örugglega fyrst og fremst að gæta tiltekinna hagsmuna og gott ef þeir kæmu ekki allir úr sérstökum flokki til að gæta þeirra hagsmuna.

Ég vil aðeins segja um þetta mál í upphafi að ég held að umræðan sé mjög þörf og að hún sé mikilvæg. Ég vil líka að við reynum að breikka umræðuna aðeins frá því sem birtist í þeim texta sem er lagður fram í greinargerð og ég ætla aðeins að reyna að gera það. Ég upplifi það nefnilega við þessa umræðu hér í dag, sem ég held að geti vel átt við fleiri, sérstaklega bændur þessa lands, og ég er einn af þeim, að það sem við erum að glíma við er að ekki er alltaf til staðar skilningur á því hvernig við þurfum að starfa og hvernig við erum að starfa. Það sem okkur getur þótt eðlileg meðferð dýra, og hefur verið um langan tíma, getur öðrum þótt mikið ofbeldi og mjög slæm meðferð á dýrum. Og við skulum bara virða þessi sjónarmið, við skulum bara hafa skilning á þeim af því að þau eru lögð fram í góðri trú. Fólk sem er ekki vant að umgangast dýr, þekkir ekki til þess, getur hrapað að þessari ályktun og við skulum bara ræða hana og virða hana.

Við erum að ræða um vinnslu á blóði sem hefur verið stunduð um áratugaskeið. Það eitt og sér réttlætir ekki að henni eigi að halda áfram. Og það réttlætir það aldrei í mínum huga og ég vil taka það skýrt fram — ég get aldrei komið í ræðustól Alþingis og varið á einhvern hátt slæma meðferð á dýrum. Ég hef verið sakaður um mjög slæma meðferð á dýrum. Það eru hræðileg spor að vera í að sitja undir þeim áburði. Á endanum var ekki hægt að halda því fram að um væri að ræða slæma meðferð á dýrum en það var einfaldlega upplifun annarra að ég væri að fara illa með dýr. Og það er þessi menningarmunur sem við erum kannski að fást við hér í dag.

Um efni greinargerðarinnar vil ég aðeins segja að ég tek undir þar sem fjallað er um lög um velferð dýra og markmiðið að stuðla að aukinni velferð dýra og að þau séu laus við vanlíðan, hungur og þorsta, ótta og þjáningu, sársauka, meiðsli og sjúkdóma. Og ég segi aðeins þetta, virðulegur forseti: Það hafa orðið miklar framfarir í velferð og aðbúnaði dýra á Íslandi og um allan heim, sem betur fer. Bændur hafa þurft að standa í miklum og stórum fjárfestingum til að mæta nýjum kröfum. En ég vil að við horfum þá víðar yfir sviðið og spyrjum líka hvaða kröfur við ætlum að gera til annarra bænda í öðrum löndum sem við viljum eiga viðskipti við. Erum við jafn upptekin af því? Þegar ég var í öðru starfi, formaður Bændasamtaka Íslands, bentum við t.d. ítrekað á að talsvert mikill munur væri á aðbúnaðarkröfum ýmissa búfjártegunda og þeim sem gerðar væru til íslenskra bænda sem leiddi einfaldlega til dýrari framleiðslu hér heima. En það virtist ekki skipta neinu máli hér á markaði að kröfur um aðbúnað væru með öðrum hætti í öðrum löndum. Við fengum enga sérstaka premíu fyrir það, höfðum ekkert forskot vegna þess. Þetta var fyrst og fremst til þess að rýra samkeppnisstöðu íslenskra bænda.

Ég vil ekki að við nálgumst umræðu um þetta mál hér í þinginu með því að segja að við getum sagt fortakslaust, eins og sagt er í greinargerðinni, að fylfullar hryssur séu meðhöndlaðar með ofbeldi. Mér finnst það mjög alvarleg ásökun að halda því fram í þessari greinargerð. Ég verð að mótmæla því úr ræðustóli Alþingis að sá dómur sé felldur yfir öllum bændum sem hafa staðið í þessum búskap af því að ég veit að svo er ekki. Hvers vegna er þessi búskapur? Sú umræða hefur farið hér fram að fólk hafi jú skilning á því að fólk sé að skapa sér tekjur af löndum sínum og tekjur af búrekstri. Og mér þykir vænt um að heyra að það er ágætur skilningur á því. Þessi búskapur kemur ekki síst til vegna þess að menn eiga land. Menn hafa pláss í sínum högum og menn hafa fundið viðskiptatækifæri í því að halda hross og selja úr þeim blóð. Ég held að fyrir nefndina sem ræðir þetta mál sé mikilvægt að rýna rannsóknir um áhrif þess að taka blóð úr fylfullum hryssum, hvort sem það er á fóstrið, á folaldið eða á hryssuna sjálfa. Og það magn sem er tekið í hvert skipti, fjórir til fimm lítrar — ef mér förlast ekki lærði ég það einhvern tíma í gömlu búfjárfræðunum að það væru 20 til 25 lítrar af blóði í hverri hryssu. Við þurfum við meðferð málsins að pæla okkur í gegnum hvaða áhrif þetta hefur áður en við dæmum það úr leik með þessum hætti. Það eru tugir bænda sem hafa afkomu af þessum búskap. Það er veruleikinn. Þess vegna finnst mér ekki verra að við ræðum það hér í 1. umr. og það hafa framsögumaður og aðrir þingmenn sem hafa tekið þátt í þessari umræðu gert mjög skilmerkilega.

Við höfum áður staðið frammi fyrir því að eitthvað sem við höfum gert um aldir eða áratugi hafi þótt óboðlegt nú til dags. Við hættum t.d. netaveiðum á laxi. Það var ekki ríkið sem bannaði netaveiðar á laxi, það voru menn sem vildu vernda laxastofninn sem bundust samtökum um að leigja þessi réttindi af bændum og bæta þeim þann skaða. Hvers vegna snúum við okkur beint til ríkisins með því að setja fyrst bann og ætla svo að taka úr ríkissjóði bætur fyrir það bann? Ef þetta er mál sem á okkur brennur, sem ég efast ekkert um, — og auðvitað hreyfði þetta umtalaða myndband við mér eins og öllum hinum og sárt að þurfa að sitja undir því að vera bóndi í landi og horfa á stéttarbræður sína fara með skepnurnar með þessum hætti — hvers vegna sprettur þá ekki upp umræða um hvernig við getum sameinast um að vinna með bændunum í að vinna sig úr þessum búskap og bæta þeim það tjón, rétt eins og við gerðum t.d. með veiðar á laxi í net? Þurfum við alltaf að koma til ríkisins og biðja um bann og taka svo úr ríkissjóði og bæta það? Ég segi bara: Reynum einhvern veginn að breikka þessa umræðu. Ég ætla að ítreka það enn og aftur, virðulegur forseti: Ég ætla ekki að verja hér dýraníð en ég vil aftur á móti fella áfellisdóm, vegna þessa téða myndbands, yfir þeim dýralæknum sem áttu að vera trúnaðarmenn þeirra laga og reglna um meðferð á dýrum sem gilda í þessu landi. Mér finnst vont að upplifa að þeir hafi ekki verið starfi sínu vaxnir og látið vita með þeim hætti sem þarf að gera þegar um slík brot er að ræða.

Eitt ákvæðið hér snýst um að tilkynna brot á lögum um velferð dýra. Það setur mig í svolítinn vanda. Rétt eins og hv. þm. Inga Sæland, framsögumaður málsins, rakti í framsögu sinni: Hvers vegna ætti Matvælastofnun einni að vera heimilt að tilkynna um slæma meðferð á dýrum? Ég hef aldrei skilið lögin þannig að ef einhver sér slæma meðferð á dýrum geti hann ekki kært eða látið vita af því. Þá ætla ég aftur að nefna þann þátt sem ég byrjaði að tala um. Kannski getur verið nauðsynlegt að við höfum einhverja síu á því af því að meðferð á dýri sem einhver upplifir sem hræðilega þarf ekki að vera óeðlileg meðferð. Það bætir ekki böl að benda á annað verra, segir einhvers staðar.

Og ég ætla að enda þessa ræðu á að segja: Það er oft og það er yfirleitt hættulegt að meðhöndla stórar skepnur og oft þarf að beita heilmikilli kúnst og lagni. En grundvallaratriðið er alltaf þetta: Þú verður að mæta dýrinu á forsendum þess. Það vita allir sem halda búfé, halda dýr, að þannig verður að gera það. Þú þvingar ekki skepnur með ofbeldi til einhverrar hlýðni. Það geta aftur á móti alltaf verið einhver átök. Ær sem tekin er í rúning sest ekki af fúsum og frjálsum vilja á rassinn og bíður eftir að vera klippt, það eru heilmikil átök þegar hún er rúin í fyrsta sinn. En síðan lærir skepnan af þessu, hún temst, og ég veit að það er örugglega með sama hætti í blóðtöku á hryssum. Auðvitað ætti að gera þá eðlilegu kröfu að einungis sé verið að taka blóð úr hryssum sem eru mannvön, bandvön hross, að við séum ekki að taka úr villtu stóði og þvinga það með þeim hætti sem ég veit að þarf að gera til þess. En rétt eins og framsögumaður nefndi í framsögu sinni áðan eru uppi mikil áform um blóðtöku úr hryssum og þess vegna held ég að mikilvægt sé að við tökum þessa umræðu alla leið.

Grundvallarspurning liggur samt hérna undir, virðulegur forseti, sem ekki hefur verið rædd hér. Hvers vegna erum við að sækja þessi hormón? Hvers vegna erum við að vinna þessi hormón? Jú, það er til þess að við getum framleitt ódýrari mat. Verið er að nota þessi hormón í svínarækt til að við getum framleitt ódýrara svínakjöt. Það held ég að sé kjarninn í allri umræðu um landbúnað og um búfjárhald, krafan um ódýra matinn og hvaða afleiðingar krafan um ódýra matinn hefur síðan á meðferð skepna, þrengsl í stíum o.s.frv. Ef við værum með mál sem segði: Við ætlum að sýna dirfsku og dug í íslenskri löggjöf um dýrahald og tryggja besta aðbúnað, myndi ég vissulega taka undir það. En þá vil ég líka minna á að við getum ekki bundið hendur bænda fyrir aftan bak með þeim hætti þegar þeir keppa við aðra bændur í öðrum löndum. Grundvallarspurningin sem hér liggur undir er að verið er að sækjast eftir hormóni til að framleiða ódýran mat. Ég bind vonir við og trúi því að líftæknin leysi þann hluta að við þurfum ekki að vinna þetta hormón með þessum hætti heldur með einhverjum öðrum hætti eins og hefur orðið í fjölmörgum öðrum aðferðum sem við erum að fást við í búfjárhaldi.

Notkun hormóna í íslenskum landbúnaði var bönnuð á Íslandi 1965. Yfirdýralæknir, sem hafði forystu um það á þeim tíma, hlaut ekki mikið klapp, hvorki hjá bændum né neytendum, en það var framsýnn yfirdýralæknir sem barðist fyrir því banni. Frá 1965 höfum við ekki notað hormóna til að auka vaxtargetu dýra. Við erum líka framarlega í þeim efnum að nota lítið af sýklalyfjum í landbúnaði. Virðum það að löggjöf um velferð dýra hefur tekið framförum, eins og rakið er í greinargerð frumvarpsins. Aðbúnaður dýra hefur tekið miklum framförum. Sem betur fer má gera betur en köstum ekki út af borðinu afkomu tuga fjölskyldna í landinu með því að bregðast við með þeim hætti að boða fyrst fortakslaust bann án þess að við rannsökum málið til hlítar. Með þessu er ég að segja, virðulegi forseti: Ég vil umræðuna, ég vil komast í gegnum hana áður en ég tek afstöðu til málsins.