152. löggjafarþing — 7. fundur,  8. des. 2021.

velferð dýra.

15. mál
[18:35]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Ingu Sæland fyrir þetta andsvar. Ég tók þessa setningu upp úr greinargerðinni sem hljóðar svo, með leyfi forseta: „Í myndinni eru færð rök fyrir því að ætla megi að slíkt harðræði tíðkist almennt við blóðtökuna hér á landi.“ Almennt. Það var með vísan í þessa setningu sem ég lét þau orð falla að hér væru allir bændur settir í sama flokk og ásakaðir með sama hætti. Ef svo er ekki, og ég heyri það á andsvari hv. þingmanns að það var ekki hennar meining, þá tek ég alveg hennar skýringu gilda í þeim efnum. Það sem ég var einungis að reyna að draga fram, hv. þingmaður, er skilningur á búfjárhaldi — og ég ætla ekki út í umræðuna um að það sé meira inngrip að slátra dýrum en að taka úr þeim blóð, ég ætla ekki að fara með umræðuna þangað. Þau orð hafa m.a. fallið hér í umræðunni í dag að það geti verið óeðlilegt að þurfa að halda hryssum á hverju ári til þess að framleiða blóðið og þegar ég heyri svona ræður þá hef ég á því skilning að fólk er að máta sig við aðstæður sem það hefur kannski ekki búið við. En þetta er fyrst og fremst eðli náttúrunnar og ef hryssan væri villt í stóði væri hennar eðli að kasta folaldi á hverju vori og vera fylfull á hverju ári. Ég er aðeins að reyna að draga það fram að við megum ekki fara með umræðuna svo langt frá náttúrunni og eðli skepnanna að við séum á einhvern hátt að manngera það út frá einhverjum hagsmunum sem okkur líður vel með.