152. löggjafarþing — 7. fundur,  8. des. 2021.

velferð dýra.

15. mál
[18:39]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka seinna andsvar hv. þm. Ingu Sæland og skal reyna að bregðast við með því að að segja: Auðvitað hef ég áhyggjur af orðspori þegar við erum sett undir slíka mælistiku eða í slíkt ljós sem þarna var. Ég ætla ekkert að gera lítið úr skaða sem það getur valdið. En við erum oft að lenda í skaða og lendum í umræðum um ýmislegt sem miður fer. Við höfum tekið blóð með þessum hætti úr hryssum í 30 eða 40 ár. Ég tek eftir því í umræðunni núna, eftir að þessi umræða kom hér upp á síðustu dögum, að t.d. Félag hrossabænda sem mælti gegn frumvarpi hv. þingmanns í fyrra, vitandi það að þessi blóðtaka hefur verið áratugum saman, hrekkur núna eilítið til baka. Þá freistast maður til að segja: Bíddu, eru menn að horfa sér nær og horfa virkilega bara á eigin hagsmuni? Ég gæti líka verið andstyggilegur, hv. þingmaður, og sagt: Það eru miklu meiri útflutningsverðmæti af útfluttu blóði en reiðhestum, en ég set þetta bara ekki í það samhengi. Íslenski hesturinn er stórveldi í búskap á Íslandi, í landbúnaði á Íslandi. Hann er, eins og ágætur maður hefur sagt, sendiherra okkar í öðrum löndum og ber hróður okkar víða. Það er ofboðslegt áfall að fá slíkan dóm, slíkan stimpil á íslenska hestamennsku sem þetta myndband setur fram. Ég vil að við höfum meira jafnvægi í þessari umræðu og virðum líka þá sem gera þetta vel og með réttum hætti og við skiljum það hvernig þeir fara að þessu. Við getum ekki með einu pennastriki sett alla í sama flokk og dæmt út frá einhverjum sem koma óorði á þessa hluti því að rétt eins og með brennivínið eru það rónar sem koma óorði á það en ekki allir hinir sem kunna með það að fara.