152. löggjafarþing — 7. fundur,  8. des. 2021.

velferð dýra.

15. mál
[18:41]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég vil byrja á að taka fram að þessu frumvarpi er ekki á nokkurn hátt beint gegn bændum eða beint gegn landsbyggðinni. Þetta er frumvarp sem lýtur að velferð dýra. Eins og hv. þingmaður benti á er í greinargerðinni vitnað í lög um velferð dýra og þar er meira að segja sagt að þau eigi að vera laus við vanlíðan, hungur, þorsta, ótta og þjáningu og sársauka, meiðsli o.s.frv. Hann minntist líka á eðli skepnanna. Ég vil meina og það er mín sannfæring að blóðtaka úr fylfullum merum sé andstæð velferð dýra, gangi gegn eðli skepnanna og valdi þeim vanlíðan og þjáningu. Þetta eru ekki venjulegir hestar, þetta eru fylfullar merar. Mig langar að spyrja hv. þingmann að því, mér heyrist að hann sé ekki búinn að taka afstöðu til þessa, það væri gaman að vita: Er hann búinn að taka afstöðu til þess hvort þetta gangi gegn velferð dýra eða ekki?

Varðandi ímyndina þá eru þetta smápeningar, þessar 207 millj. kr. eða á milli 200 og 300 millj. kr, en ég held að svona starfsemi stórskaði matvælaframleiðslulandið Ísland og þetta stórskaðar ímynd íslenska hestsins. Mér þætti vænt um að fá að heyra líka viðhorf hans til þess.