152. löggjafarþing — 7. fundur,  8. des. 2021.

velferð dýra.

15. mál
[18:47]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni hans seinna andsvar og vil jafnframt segja að það var ekkert sérstaklega sanngjarnt af mér að senda honum þessa spurningu sem ég gerði. Ég vil bara draga það fram í seinna andsvari að ég er alltaf að reyna að ná utan um það að skilningurinn er að fara frá því að menn skilji aðstæður bænda og hvað þarf að gera til að búa með búfé. Ég ætla ekki að segja að það hafi byrjað með teiknimyndavæðingu Disney þegar Bambi var persónugerður en þetta er samt eilítið sprottið þaðan.

Það eru tvö atriði í seinna andsvarinu sem ég vil reyna að gera skil. Í fyrsta lagi fjórða iðnbyltingin. Ég held að fjórða iðnbyltingin og það sem við höfum staðið fyrir hér á landi, ljósleiðaravæðing sveitanna, sé frábært tækifæri fyrir íslenska bændur og fyrir velferð dýra. Sú nýja tækni sem við getum byggt ofan á þessa tækni er einmitt fyrst og fremst velferðartækni. Þessi nýjasti tæknibúnaður sem er verið að innleiða í landbúnaði, ekki bara á Íslandi heldur úti um allan heim, eins og mjaltaþjónar, örmerkjalesarar í sauðfé og vigtunarbúnaður — þetta eru allt saman hlutir sem byggja undir velferð dýranna. Ég tek alveg undir með hv. þingmanni sem hann nefnir hér um fjórðu iðnbyltinguna, um matinn og hann sé ekki fullkomlega iðnvæddur. Kannski er vandamál þessarar umræðu hér í dag um blóðmerahald hluti af því að við höfum á einhvern hátt „iðnvætt“ þá búgrein. Ég held að það geti verið, ég held að það sé alveg ástæða þess að við ræðum það í þessu samhengi.

Hv. þingmaður setur síðan okkur í þá aðstöðu að bera okkur saman við fátækari ríki. Veruleikinn er sá, hv. þingmaður, að við erum að fjalla um fólk sem er að berjast í bökkum með sína afkomu. Það er önnur og meiri umræðu heldur en við ráðum við í umræðu um þetta mál og ég er alveg tilbúinn að mæta í hana.