152. löggjafarþing — 7. fundur,  8. des. 2021.

velferð dýra.

15. mál
[18:49]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Frú forseti. Þetta hefur verið mjög áhugaverð umræða hérna í dag, virkilega. Þótt ekki væri nema bara þess vegna er ástæða til að þakka hv. þingmanni fyrir framlagningu málsins, en þar að auki held ég að þarna sé á ferð mjög þarft mál. Það er mjög nauðsynlegt fyrir Alþingi að takast á við augljóst dæmi um dýrahald sem gengur ekki eins og það á að ganga, og ræða það hvar við setjum mörkin.

Ég fletti því upp til gamans og komst að því að það er afmælisdagur í dag: Í dag eru í fimm ár síðan ég lagði fram fyrstu fyrirspurn mína hér á þingi um upplýsingagjöf stjórnvalda vegna Brúneggjamálsins. Það eru miklar hliðstæður á þessum tveimur málum. Stærsta hliðstæðan er náttúrlega sú að það var ekki eftirlitsaðilinn sem kom upp um það heldur fjölmiðlar, einhver utanaðkomandi, einhver sem á ekki að þurfa að hafa eftirlit með velferð dýra. Við eigum að hafa skýrar reglur. Við eigum að hafa öflugt eftirlit og það á að vera eins gagnsætt og hægt er. Þannig tryggjum við velferð dýranna. En þannig hefur það því miður bara ekki verið. Eftirlitsstofnanirnar eru og hafa alltaf verið vanhaldnar. Lög um dýravelferð eru nýleg og um margt stórt framfaraskref frá því sem áður var, en ganga samt engan veginn nógu langt að ýmsu leyti. En það breytir engu ef eftirlitið fylgir síðan ekki lögunum eins langt og hægt er.

Svo er umræðan sem fylgir þessum málum mjög keimlík. Almenningur er nefnilega með hjartað á réttum stað þegar kemur að dýraníði. Þegar við sjáum í fjölmiðlum dýr sem komið er illa fram við þá snertir það einhverja taug og fólk segir bara: Hingað og ekki lengra. Í Brúneggjamálinu var rekstraraðilinn ekki alveg jafn snöggur að taka við sér og Ísteka var í þeirri yfirlýsingu sem kom frá þeim í dag, en það fyrirtæki áttaði sig alla vega ekki á því að það væri hægt að verjast, það þyrfti bara að viðurkenna vandann og taka á honum. Þrýstingur almennings og þrýstingur þeirrar umræðu sem var hér fyrirhuguð á þingi hafði áhrif, þannig að einhver skref verða tekin í rekstri fyrirtækisins. En eftir stendur siðferðilega spurningin sem hér hefur verið undirliggjandi, hvort þetta sé rekstur sem geti yfir höfuð verið í samræmi við almennilegan búskap, almennilega framkomu gagnvart dýrum.

Ég ætla að nefna nokkrar tölur. Ég ætla að byrja á þeirri fyrstu sem hv. þm. Inga Sæland nefndi í framsöguræðu sinni, að við erum að tala um 200–300 millj. kr. sem bændur hafa árlega í tekjur af blóðmerahaldi. Og við erum að tala um 1.700 millj. kr. gjaldeyristekjur sem eru vegna útflutnings á hormónum, 1.700 milljónir í gjaldeyristekjur, 200–300 milljónir til bænda. Þetta eru alvöruupphæðir, sérstaklega fyrir bændur sem eru nú ekki tekjuhæsta stétt landsins, langt í frá. Þá getur munað um þetta. En ég staldraði dálítið við þegar hv. þm. Ásmundur Friðriksson sagði að við ættum ekki að fara að beita okkur gegn blóðmerahaldi og láta þannig undan þrýstingi frá einhverjum erlendum aðilum sem eru að hóta okkur. Ég hef svo sem ekki tekið eftir mörgum slíkum aðilum, en það voru erlend dýraverndarsamtök sem stóðu að rannsóknarblaðamennskunni sem fletti ofan af þessu máli. Svo er það umræðan hér innan lands sem hefur keyrt þetta mál áfram fyrst og fremst.

En mig langar að nefna nokkra aðra erlenda aðila. Fyrst langar mig að nefna erlendu aðilana sem elska að heimsækja okkur, sem þykir vænt um landið okkar og þykir vænt um hestana okkar. Það er nefnilega þannig að næstum tíundi hver ferðamaður sem kemur til landsins fer á hestbak meðan hann er hérna og af því að hrossin okkar eru svo skemmtileg og reiðtúrunum fylgir þessi djúpa upplifun af náttúru landsins þá eru þetta ferðamenn sem komast á bragðið og verða gjarnan fastagestir. Þú kemur ekki bara einu sinni til Íslands og ferð á hestbak og svo aldrei aftur. Fyrir vikið velta hestaleigur og hestaferðafyrirtæki 7–8 milljörðum á ári, það er veltan árið 2018 samkvæmt, fyrirgefið, með leyfi forseta, Horses of Iceland, sem ég reikna með að sé bara hrossakynningarátak Íslandsstofu, en það þarf að heita eitthvað smart. En hvaða fólk fær þessa 7–8 milljarða? Ætli það séu ekki aðallega bændur? Ég myndi halda að hestaleigur og hestaferðafyrirtæki séu fyrst og fremst smærri fjölskyldufyrirtæki hér og þar um landið þar sem náttúran er sem ferðirnar snúast út á að komast í snertingu við. Þetta eru 7–8 milljarðar á móti þeim 200–300 milljónum sem renna til blóðmerabænda. Og það þarf ekki einhverja erlenda aðila að hóta einhverju til að grafa mögulega undan þessum hagsmunum bænda, heldur einfaldlega það að fólkið sem elskar að koma til Íslands til að fara á hestbak fílar þetta bara ekki, finnst þetta bara ógeðslegt.

Svo langar mig að tala um aðra erlendra aðila. Það eru erlendu aðilarnir sem elska hestana okkar svo mikið að þeir vilja fá þá til sín þar sem þeir búa. Og nú ætla ég að vitna í Bændablaðið. Það birti nefnilega frétt um daginn varðandi það að árið 2020, á síðasta ári, hafi verið flutt út fleiri hross en á nokkru ári síðan árið 1997, eða 2.320 hross. Og munum; það eru 5.000 blóðmerar. Helmingurinn af þeim fjölda var fluttur úr landi til fólks sem vill eiga íslenskan hest. Samkvæmt Hagstofunni voru samanlögð útflutningsverðmæti þessara hrossa 1,5 milljarðar íslenskra króna. Þetta er svipað og Ísteka náði í gjaldeyristekjur á sama ári, nema Ísteka er eitt fyrirtæki, en þessi 2.320 hross — ég ætla að giska á að þau hafi komið frá nokkur hundruð bændum. Þannig að þetta er 1,5 milljarðar sem dreifast um landið til bænda. Þetta er 53% aukning frá árinu á undan.

Það þarf ekki erlenda aðila að hóta okkur til að grafa undan þessu heldur þarf bara það að fólkið sem langar alveg ofboðslega mikið að eiga íslenskan hest í útlöndum hafi áhyggjur af því að blóðmerabændur séu að selja þeim hesta líka, t.d.

Þarna erum við með stóru tekjustofnana sem hægt er að bera saman: 1.700 millj. kr. gjaldeyristekjur vegna sölu á hormóni úr blóðmerum, 7–8 milljarðar á ári vegna túrista sem fara á hestbak og 1,5 milljarðar vegna sölu á hestum úr landi. Ég held að til lengri tíma litið sé ekki hægt að halda í þetta þrennt á eyjunni okkar á sama tíma. Það er ekki hægt — mér finnst alltaf pínu erfitt að tala um ímynd Íslands eins og hefur verið gert oft í umræðunni, en jú, jú, það er náttúrlega það sem þetta snýst um. Þetta snýst um fólkið sem vill ríða út, vill eiga í samskiptum við hestana, vill skoða náttúruna á hestbaki, vill vera með hest heima hjá sér úti í löndum. Er það ekki bara stærri kaka en þetta blóðmeradæmi? Er það ekki það sem við viljum frekar standa vörð um? Ef þetta blóðmeradæmi telur eitthvað um 100–200 bændur, hvað ætli sé margt fólk sem hefur töluverðan hluta af tekjum sínum af útreiðatúrum eða útflutningi á verðlaunahrossum? Það er kannski eitthvað sem nefndin gæti skoðað. Ég ætla að giska á að það sé stærri hópur, vegna þess að síðan er jú einn hópur erlendra aðila í viðbót sem þetta snýst um og hv. þm. Haraldur Benediktsson nefndi aðeins, reyndar ekki sama nafni og ég ætla að nefna hann; þ.e. erlendu aðilarnir sem elska beikon. Vegna þess að þessi blóðmeraiðnaður er bara eitt tannhjól í verksmiðjubúskap heimsins. Mig langar að segja að þetta sé dálítið dæmi um firringuna sem eitthvert ofurframleiðslusamfélag gengur út á sem elur gjarnan af sér ósjálfbært og ómannúðlegt kerfi, eins og við þekkjum nú yfirleitt úr einhverjum erlendum heimildarmyndum en sjáum að teygir anga sína hingað til lands. Rányrkja, hvort sem það er á auðlindir jarðar eða á kostnað dýra, ósjálfbær neysla, allt svoleiðis, þetta er allt eitthvað sem ekki getur staðið til framtíðar. Blóðmerarnar eru einfaldlega hluti af — ég á nú kannski ekki einu sinni kalla það verksmiðjubúskap. Þetta er varla búskapur þegar við erum að tala um það að dæla gyltur fullar af frjósemislyfjum svo þær komi beikoninu hraðar út úr sér.

Ég hef gaman af því að hlusta á hv. þm. Harald Benediktsson tala um búskap. Hann lýsti þeirri tilfinningu sinni að fólkið í umræðunni væri stundum búið að fjarlægjast skilning á starfi bóndans og skilning á náttúrunni. Ég held að það megi til sanns vegar færa. En ég held líka að blóðmerahaldið sé hluti af því, dæmi um hvað við höfum fjarlægst þetta hvort tveggja, vegna þess að verksmiðjubúskapur er allt annað en starf bóndans og einhver tengsl við náttúruna, sem er það sem við viljum halda í. Ég get svo sem haldið áfram í heimspekilegu og siðferðilegu pælingunum, vegna þess að það er alveg rétt sem hv. þm. Haraldur Benediktsson segir, að ýmis afurðanýting getur gengið nærri dýrum. Það er erfitt að sjá sumt í eigin persónu á bóndabæjum ef við erum óvön því. Ýmis afurðanýting gengur náttúrlega gjarnan það langt að dýrin eru hreinlega drepin til að vera étin. Það er varla hægt að ganga nær þeim en það.

En þetta er kannski eitthvað sem við þurfum að ræða á næstu árum vegna þess að ef við tökum til hliðar myndbandið sem talað er um í greinargerðinni og hugsum bara um að blóðmerar — ég ætla að lesa hér setningu úr greinargerðinni, með leyfi forseta:

„Blóðmerar eru látnar ganga með folöld eins oft og mögulegt er til að hámarka afköst hverrar merar, þar til hormónið finnst ekki lengur í blóði hennar. Þegar svo er komið er merunum slátrað. Folöldunum er að jafnaði slátrað.“

Ef ég vildi vera stríðinn þá gæti ég bent á að þetta er náttúrlega bara skapalónið að mjólkurbúskap líka. Hagnýting mannfólks á dýrum er oft eftir einhverri svona uppskrift og siðferðilega spurningin sem heimurinn þarf (Forseti hringir.) að takast á við á einhverjum tímapunkti er: Hversu mikið er nóg? (Forseti hringir.) Ég held að þegar við horfumst í augu við það að nýta hross eingöngu til að geta búið til meira beikon, (Forseti hringir.) þá erum við alla vega komin vel yfir það strik.