152. löggjafarþing — 7. fundur,  8. des. 2021.

velferð dýra.

15. mál
[19:05]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hans. Hann talaði um ferðaþjónustuna og ímynd Íslands og ímynd hestsins og tekjur af ferðaþjónustunni og afurðanýtingu. Það er augljóst mál að afurðanýting gengur mjög nærri dýrum, þeim er slátrað, þau deyja, til þess eru þau ræktuð. En svo er ekki hér þó að hagnýting mannfólks á dýrum hafi náttúrlega verið síðan við byrjuðum að ganga upprétt.

En mig langar að spyrja hv. þingmann að því sem ég fékk ekki alveg svar við í ræðu hans og væri fróðlegt að fá að vita: Telur hann að það að taka blóð úr fylfullum merum, merum sem ganga með folald, sé siðferðislega ámælisvert, það gangi gegn velferð dýra, það gangi gegn markmiðum laga um velferð dýra, sem eru að dýr geti sýnt sitt eðlilega atferli, í þessu tilviki að ganga með folald án þess að tappað sé reglulega af fylfullu merinni vaxtarhormónum og blóði? Við getum rétt ímyndað okkur hvernig folaldið er. Afstaða hans til þeirrar spurningar hvort þetta sé dýraníð og gangi gegn velferð dýranna, ég fékk ekki að heyra þá afstöðu nægilega skýrt.