152. löggjafarþing — 7. fundur,  8. des. 2021.

velferð dýra.

15. mál
[19:33]
Horfa

Flm. (Inga Sæland) (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir hans ágætu ræðu. Og jú, ég virði skoðanir hans og þær koma mér ekkert á óvart. Þær eru svipaðar og í takt við það sem við heyrðum í vor. Hins vegar kemur mér svolítið á óvart að hann skuli vísa í umsagnirnar sem komu fram í vor. Mig langar að spyrja hann hvort hann búist ekki við því að umræða okkar hér í dag og almenningsálitið muni jafnvel verða til þess að einhverjir af þessum einstaklingum komi með pínulítið öðruvísi umsagnir núna þegar málið fer í vinnslu.

Annað sem vakti athygli mína, sem minnti mig á þegar ég horfði á þessa fagurgalamynd Ísteka um það þegar blóðmerarnar virtust næstum því svífa á vængjum til að láta sjúga úr sér blóð: Hér talar hv. þingmaður um að hryssurnar labbi þarna, 30 stykki, og elti bóndann bara inn í básinn og eitthvað svona. Ég spyr hv. þingmann: Eru þetta tamdar merar sem um er að ræða hér? Vegna þess að svona er ekki hægt að gera gagnvart villtum merum með folald. Það segir sig náttúrlega sjálft.

Svo er líka hitt, að þegar er verið að tala um hver raunverulegi tilgangurinn sé með dýrunum og vísað í hesta í útreiðartúr eða annað slíkt, sem vildu kannski ekki vera í nákvæmlega þeirri þjónustu, þá spyr ég hv. þingmann: Leggur hv. þingmaður það að jöfnu að fara með blóðmeri og binda hana upp á hausnum og dæla úr henni í blóði, og að vera með hest til útreiðar? Erum við komin þangað, hv. þingmaður? Við erum aðallega að reyna að vernda dýrin gegn þessari illu meðferð. Og þessi mynd, sem margumtöluð er, er vonandi ekki dæmi um að það sé algilt að svona sé farið með merarnar. En það liggur í hlutarins eðli að þetta verður ekki gert fallega.