152. löggjafarþing — 7. fundur,  8. des. 2021.

velferð dýra.

15. mál
[19:35]
Horfa

Þórarinn Ingi Pétursson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka andsvarið og spurningarnar frá hv. þm. Ingu Sæland. Þetta voru nú nokkrar spurningar og ég ætla að vona að ég muni eitthvað af þeim. En ef við byrjum á þessum 30 hryssum sem ég var að segja frá, þegar þær löbbuðu inn básinn, þá sagði ég líka að bóndinn hefði mýlt þær og teymt þær inn í básinn. Við skulum hafa það á hreinu.

Munurinn á bandvönu hrossi og tömdu hrossi er stórkostlegur, þ.e. á ótömdum hrossum og hrossum sem eru tamin til útreiðar eða sem þekkja það aðeins að láta setja á sig múl og láta teyma sig. Það var nú það sem ég var að vísa í. Til upplýsingar og frekar um það sem ég var að reyna að útskýra hér áðan að þá er grunneðli hrossins ekki það að láta ríða á sér, grunneðli þeirra er vera villt úti í haga. Við mennirnir tókum hrossið til okkar og gerðum það að húsdýri og ákváðum hvaða hlutverki það skyldi gegna.

Ég deili ekki skoðun hv. þingmanns á því að blóðtaka sé dýraníð. Það kom ágætlega fram í ræðu minni áðan. Ég er bara ekki staddur þar að ég telji það vera dýraníð ef rétt er að því staðið, svo það sé sagt. Ég vona að ég hafi svarað öllu sem hv. þingmaður spurði um. Ég biðst afsökunar á því fyrir fram ef ég hef ekki gert það.