152. löggjafarþing — 7. fundur,  8. des. 2021.

velferð dýra.

15. mál
[19:37]
Horfa

Flm. (Inga Sæland) (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Mig langar til að spyrja hann beinna spurninga: Vissi hv. þingmaður af því að forstjóri Ísteka var viðstaddur blóðtöku á einum af þeim bæjum sem fjallað er um í myndbandinu um þetta dýraníð? Vissi hv. þingmaður að hann var þar algerlega af fúsum og frjálsum vilja og algerlega „involveraður“ í það sem þar fór fram? Þar var hann ekki teyma neinar hryssur sem eltu hann glaðlega inn í básinn til þess að láta taka úr sér blóð. Þegar hv. þingmaður nefndi áðan að gerðar hefðu verið rannsóknir á því að merar, sem tekið hefur verið úr blóð, jafnvel allt að átta sinnum, eins og við þekkjum, alls fimm lítrar í hvert sinn, og folöldin þeirra séu staddar á nákvæmlega sama stað og venjuleg hryssa sem ekki hefur þurft að þola það, þá langar mig bara að spyrja hv. þingmann: Getur hann lagt fram einhver gögn um slíkt? Því að það er algjörlega þvert á það sem ég hef fengið að vita, algerlega þvert. Það segir sig sjálft, hefði ég haldið, bara fyrir hvern sem er, að þegar er búið að tæma vaxtarhormón úr blóði meðgöngumóðurinnar þá hlýtur það að hafa áhrif á afkvæmið sem hún gengur með. Það liggur bara í hlutarins eðli. Ég spyr hv. þingmann: Hvar fæ ég þessi gögn?