152. löggjafarþing — 7. fundur,  8. des. 2021.

velferð dýra.

15. mál
[19:39]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mig langar að benda á í upphafi varðandi umsagnirnar sem koma í vor að ég þori nánast að veðja aleigunni að þeir aðilar sem sendu umsagnir síðasta vor munu ekki senda sömu umsagnirnar aftur. Það er m.a. vegna þess að þeir skildu ekki frumvarpið þá en ég get lofað því að þeir skilja það núna.

Hv. þingmaður minntist á að rýja, ef ég man rétt. Ég tel að það sé ekki hægt að bera þetta saman. En mig langar að spyrja hv. þingmann um það sem hann sagði í ræðu sinni, að hryssum væri eðlislægt að eiga folöld einu sinni á ári. Svo nefndi hann líka að það væri grunneðli hrossins að vera villt í haga en við höfum náttúrlega tamið hestinn og notum hann sem reiðhest. En aftur varðandi það að hryssum sé eðlislægt að eiga folald einu sinni á ári þá er markmið dýraverndarlaga að dýr geti sýnt sitt eðlislæga atferli. Það er klárt mál í mínum huga að blóðtaka úr merunum, til að ná í vaxtarhormónin, er gróft inngrip í þetta eðlislæga atferli. Það er ekki hægt að líta á það öðruvísi. Það er eðlislægt að eiga folald og þegar hryssan er fylfull er gróft inngrip að tappa af henni blóði til að ná í vaxtarhormónin sem folaldið þarf til að geta vaxið. Það er í mínum huga brot á lögum um dýravernd eins og þau eru rétt túlkuð, brot á markmiðum laganna. Ég veit að þetta er leyfisskylt og allt það, en þetta er gróft brot. Það er ekki eingöngu verið skerða líf hrossins heldur er um tvöfalt dýraníð að ræða; það er brot á velferð dýrsins, hinnar fylfullu merar, í fyrsta lagi og í öðru lagi brot gegn hinu ófædda folaldi, tvöfalt. Það er alveg klárt í mínum huga.

En mig langar að spyrja hv. þingmann að því: Hvernig getur það verið eðlislægt að eiga folald einu sinni á ári (Forseti hringir.) og að blóðmerahald sé ekki brot á markmiðum laga um dýravernd?