152. löggjafarþing — 7. fundur,  8. des. 2021.

velferð dýra.

15. mál
[19:47]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka þeim sem hafa rætt þetta mál hér í dag og málshefjanda sérstaklega. Þetta er búin að vera áhugaverð umræða og ég ætla að játa það að ég á svolítið erfitt með þetta mál. Ég er að meðtaka það sem hv. þingmenn segja hér í ræðustól og ég ætla að vonast til þess að þetta verði ekki eitt af þeim málum sem sofni einhvers staðar í nefnd heldur fái almennilega meðferð í þinginu.

Byrjum á því að þetta er algerlega ólíðandi dýraníð sem við sáum í þessum myndbandi. Ég skil ekki hvað þeir sem þarna voru nálægt voru að hugsa eða gera. Ég klóra mér mjög mikið í kollinum yfir því að MAST skuli ekki hafa náð utan um þetta í sínu formlega eftirliti en að fjölmiðlamenn sem koma að utan og taka rúnt um landið á fáeinum mánuðum hitti á svona starfsemi. Sú staðreynd truflar mig pínulítið. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að almennt hugsi fólk til sveita og þeir sem halda dýr nú vel um skepnurnar sínar.

Ég á pínulítið erfitt með að móta mér fullnægjandi skoðun á því hvort mér finnist þetta siðferðilega verjandi iðnaður gagnvart svínum, þ.e. að auka vöxt þeirra. Margir bentu á að það gæti verið á gráu svæði. Síðan finnst mér sérkennileg þessi mikla og langa og djúpa þögn fyrirtækisins sem hér um ræðir sem hefur falið sig svolítið á bak við fréttatilkynningar og er svolítið seint í því að rifta samningi við það fyrirtæki sem var undir í þeirri blóðtöku sem við sáum í myndbandinu.

En ég tók eftir því að hv. þm. Þórarinn Pétursson talaði um að þetta væri algjört frávik. Því spyr ég: Getum við verið viss um að þetta sé einstakt frávik þegar, eins og ég lýsti áðan, Matvælastofnun sér ekkert í sínu eftirliti en það kemur einhver fjölmiðill að utan, tekur rúnt um landið og dettur beint niður á svona athæfi?