152. löggjafarþing — 8. fundur,  9. des. 2021.

aðgerðir gegn kynferðisbrotum og aukinn stuðningur við þolendur.

16. mál
[15:33]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Frú forseti. Mig langar að þakka hv. þm. Gísla Rafni Ólafssyni kærlega fyrir að setja þetta mál á dagskrá og fyrir að segja sína sögu. Það er ofboðslega mikilvægt að fólk segi sögu sína og upplifun sína af kerfinu. Og á sama tíma og maður finnur til og verður klökkur þá dáist ég líka að þeim sem það gera því að það er okkur öllum mjög mikilvægt. Ég þakka fyrir að þetta mál sé sett á dagskrá og ég vænti þess og veit að þetta er mál sem við munum fjalla um á komandi þingi og þingum. Ég hygg að þessi þingsályktunartillaga fari til hv. allsherjar- og menntamálanefndar, frú forseti. Ég leiði þá nefnd og hlakka til að taka tillöguna til umfjöllunar.

Þegar ég les yfir greinargerðina, sem er að mörgu leyti mjög gagnleg — áhugaverðar tölur sem þarna eru settar fram, samanburður við önnur Norðurlönd — hygg ég að við í nefndinni þurfum að leggjast í töluverða greiningu á stöðu þessa málaflokks. Mig langar líka að benda á að á 149. þingi lagði ég fram fyrirspurn til þáverandi dómsmálaráðherra um hverju aukin fjárveiting til þessa málaflokks hefði skilað hjá lögreglunni. Í kjölfarið fékk ég tækifæri til að heimsækja kynferðisbrotadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og fræðast meira um þeirra breytta verklag. Hægt að lesa úr því svari sem barst á þessu þingi mjög áþreifanlegan árangur í fjölda mála og hraðari afgreiðslutíma. Við erum samt langt frá því að standa okkur nægilega vel því að auðvitað eiga öll þessi mál að fá framgang í kerfinu, fá athygli og þolendur að fá þá aðstoð sem hægt er að bjóða upp á hvað það varðar.

Ég segi bara: Ég mun leggja mig fram um að fara vel yfir þessa þingsályktunartillögu og ég vænti þess að við munum fjalla vel og ítarlega um hana í nefndinni og kalla eftir upplýsingum innan úr kerfinu. Eins og hv. þingmaður kom ágætlega inn á þá hefur aðgerðaáætlun verið í gangi. Aðgerðaáætlunin varð til í tíð þáverandi hæstv. ráðherra Ólafar Nordal heitinnar og hefur áætluninni verið fylgt eftir af allmörgum ráðherrum síðan þá. Það er einmitt verið að vinna að nýrri aðgerðaáætlun og ég held að það sem hér kemur fram sé ofboðslega gott fóður inn í þá vinnu.

Ég sé að mjög margir þingmenn eru í hópi flutningsaðila og ég finn það og vænti þess að í þessum sal sé mikill samhljómur um að í þessum málaflokki viljum við gera svo miklu betur.