152. löggjafarþing — 8. fundur,  9. des. 2021.

aðgerðir gegn kynferðisbrotum og aukinn stuðningur við þolendur.

16. mál
[15:42]
Horfa

Jóhann Friðrik Friðriksson (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér þingsályktunartillögu um aðgerðir gegn kynferðisbrotum og aukinn stuðning við þolendur. Ég þakka hv. þm. Gísla Rafni Ólafssyni fyrir að leggja þingsályktunartillöguna fram. Um er að ræða gríðarlega mikilvægt mál og fagna ég því að það sé komið til umræðu hér á Alþingi. Eins og fram hefur komið í þessari umræðu snúast helstu þættir málsins um styttingu málsmeðferðartíma, aukinn stuðning við þolendur og aukinn stuðning við frjáls félagasamtök sem sinna stuðningi við þennan mikilvæga hóp. Einnig er lagt til að gerð verði rannsóknarskýrsla um kynferðisbrotamál í réttarkerfinu, afdrif mála og annmarka, ásamt því að í kjölfarið fylgi tillögur um bætta málsmeðferð. Jafnframt er lagt til að skoðað verði hvernig megi tryggja bætur til þolenda af hálfu ríkisins.

Frú forseti. Því miður er það svo að þolendur veigra sér oft við að leggja fram kærur í kjölfar brota. Það er þyngra en tárum taki að upplifa þá angist og þann harm sem þolendur lýsa í kjölfar brota og með öllu ótækt að upplifun þolenda af kerfinu sé í raun það fráhrindandi að betra sé að bera harm sinn í hljóði.

Hér er um að ræða mál sem allur þingheimur getur sameinast um. Það snýst ekki um pólitík heldur um sjálfsagðar áherslur í samfélaginu. Ég styð því ályktunina heils hugar og vonast til þess að þingheimur muni fylgja málinu eftir af festu. Enn og aftur þakka ég hv. þm. Gísla Rafni Ólafssyni og þeim sem á málinu eru og vænti þess að það fái brautargengi hratt og örugglega.