152. löggjafarþing — 8. fundur,  9. des. 2021.

stjórn fiskveiða.

86. mál
[16:18]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni framsöguna. Það eru nokkur atriði í frumvarpinu sem mig langar til að biðja hv. þingmann að kafa aðeins dýpra í í framhaldi framsögunnar og það fyrsta snýr að umræðunni, sem hefur svo sem verið tekin áður, í tengslum við samþjöppun. Samþjöppunin hefur mér sýnst verða mest og hröðust þegar óvissan er mest í starfsumhverfi sjávarútvegsins. Ég hugsa að mig og hv. þingmann deili á um óvissuáhrif þessarar nálgunar, en mig langar til að biðja hv. þingmann að fara aðeins dýpra í þær vangaveltur sem snúa að samþjöppuninni því mér sýnist reynslan kenna okkur að, eins og ég segi, þegar óvissan sé mest sé samþjöppunin hröðust. Í frumvarpinu segir, með leyfi forseta:

„Frumvarpið hefur fyrst og fremst áhrif á stærri fyrirtæki. Möguleikar þeirra til frekari samþjöppunar eru þrengdir […] Minni og meðalstór fyrirtæki hafa á hinn bóginn sömu möguleika og áður til að hagræða í rekstri með því að sameinast.“

Sér hv. þingmaður fyrir sér að þetta yrði þróunin sem þetta frumvarp myndi kalla fram, að smærri fyrirtækin myndu þá sameinast inn í þau millistóru en ekki yfir í þau stærstu eins og kannski hefur verið þróunin þegar óvissuástandið hefur verið að knýja fram sameiningarnar?

Sömuleiðis langar mig að spyrja hv. þingmann varðandi það sem hún kom inn á um ráðstöfun veiðigjalds, að fólk væri húrrandi hoppandi óánægt með skiptingu veiðigjaldsins sem ég held að gæti alveg verið hægt að færa rök fyrir. En hvort hv. þingmaður sæi þá jafnvel fyrir sér að það yrði meira bundið þeim svæðum (Forseti hringir.) þar sem útgerðirnar ynnu til þess. Í staðinn fyrir að þau rynnu (Forseti hringir.) með hefðbundnum hætti við ríkissjóð og síðan tæki hvert svæði slaginn um að fá eitthvað til baka.