152. löggjafarþing — 8. fundur,  9. des. 2021.

ráðstöfun útvarpsgjalds.

129. mál
[16:37]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Bergþóri Ólasyni innilega fyrir ræðuna rétt áðan og fagna því að við skulum vera að ræða um fjölmiðla. Við getum auðvitað gert það í aðeins víðara samhengi en hann gerði í ræðu sinni. Ég skil mjög vel hugsunina á bak við það sem hér er verið að leggja til og það er að við erum með þá stöðu á fjölmiðlamarkaði, að Ríkisútvarpið, sérstaklega þegar kemur að ljósvakanum, er gríðarstór aðili, tekur til sín mikið fjármagn frá ríkinu og við erum endalaust hinum megin borðs að ræða stöðu einkarekinna miðla sem telja sig fara halloka í þeirri samkeppni og að stöðu þeirra þurfi að bæta. Ég er sammála því að það þarf að efla stöðu einkarekinna fjölmiðla. Ég er hins vegar ekki sammála því að það eigi að gera með því að veikja Ríkisútvarpið. Ég tel miklu nær að fara þá leið að ræða stöðu Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði, eins og komið var inn á rétt áðan. Það hefur að mörgu leyti gengið hægt. Það má taka undir það. En slík leið, auk annarra mögulegra ráðstafana til að styrkja einkarekna miðla, væri mun farsælli, að ég tel, og mig langar aðeins að rökstyðja hvers vegna.

Þegar talað er um yfirburðarstöðu þá þurfum við að hafa í huga ýmsa hluti, til að mynda þá að Ríkisútvarpið hefur hlutverk í samfélaginu og skyldur sem einkareknir miðlar hafa ekki. Þetta hlutverk og þessar skyldur eru gríðarlega mikilvægar að mínu viti. Það er of oft þannig, sem er eðlilegt, að þegar við ræðum stöðu Ríkisútvarpsins erum við að tala um fréttahlutverkið og fréttaþjónustuna. Eftir að hafa unnið á miðlinum í langan tíma þá veit ég að starfið sem þar er unnið þegar kemur að menningarhlutverki og miðlun á alls konar öðru efni en bara fréttaefni, er alveg ótrúlega stór og mikill hluti af starfseminni. Hvort við myndum stilla Ríkisútvarpinu upp eins og það er ef við værum að stofnsetja það í dag er ég ekkert endilega viss um, en það er þá eitthvað til að taka til umræðu innan stofnunarinnar frekar en að fara þá leið sem hér er lögð til.

Við sjáum ef við skoðum þetta, og nú komum við inn á það sem skiptir svo miklu máli alltaf þegar við erum að ræða um þessa hluti, hvað Ísland er í raun og veru smár markaður. Að búa til mikilvægt menningarefni, skrásetja söguna og halda utan um þetta allt fyrir komandi kynslóðir kallar á mannafla, tæki og útgjöld. Þetta er dýrari útgerð út af fámenninu hér en í milljónasamfélögum. Ég get nefnt sem dæmi að fréttastofa Ríkisútvarpsins er ekkert mikið stærri en bara öflugir fréttaskýringaþættir í stærstu miðlum úti í heimi. Stærðarmunurinn er alveg yfirgengilegur. Þannig að þó að þetta sé yfirburðastaða á íslenskan mælikvarða þá er þetta um margt bara það sem þarf til þess að geta skrásett söguna, haldið utan um menningararfinn og framleitt allt það mikla menningarefni sem þarna er framleitt. Ég nefni Rás 1 sérstaklega í útvarpsmiðlun og við sjáum auðvitað á dagskrá ríkissjónvarpsins þætti sem myndu aldrei vera í loftinu á einkareknum miðlum. Það er bara eðlilegasti hlutur í heimi. En við viljum að þetta efni sé skrásett, framleitt og flutt í miðli, ég er mjög eindregið þeirrar skoðunar. Þegar ég var yngri hafði ég ekki þá skoðun. Þá fannst mér engin ástæða til þess að ríkið starfaði á því sem ég kallaði þá samkeppnismarkað, en samkeppnishlutinn er bara svo lítill partur af heildarmyndinni að mínu mati. Yfirburðastaðan verður því að skoðast með hliðsjón af því að við erum á smáum markaði og hvert hlutverkið og skyldurnar eru hjá Ríkisútvarpinu.

Síðan má líka að nefna annað í þessu samhengi og það er að þetta hangir allt saman. Við erum með stóran, eða vaxandi, skulum við segja, geira sem er kvikmyndagerð. Við erum líka svolítið að ræða í þinginu, bæði í tengslum við fjárlög o.fl., til að mynda endurgreiðslur til kvikmyndagerðar vegna þeirrar framleiðslu sem fer fram hér heima og það eru tillögur um að setja á laggirnar streymisveitur til að halda utan um menningararfinn og gera hann aðgengilegri fyrir almenning. Allt þetta hangir saman við það að hér séu öflugir fjölmiðlar. Öflugt ríkisútvarp býr til ákveðna hliðarafurð sem er þetta samhengi við kvikmyndagerð, því að það er ótrúlega mikið af fyrirtækjum sem eru í mörgum verkefnum, m.a. að framleiða fyrir Ríkisútvarpið eða að sinna þar alls konar tækniþjónustu, taka að sér verktöku við gerð einstakra þátta eða annað sem nýtist síðan líka í þeirri einingu sem er þá hugsuð til kvikmyndagerðar eða jafnvel auglýsingagerðar eða annars, þannig að þessi geiri hangir svolítið saman.

Ég held að í svona litlu samfélagi eins og á Íslandi ættum við og eigum að vera með sterkt og öflugt Ríkisútvarp og við eigum ekki, eins og mér finnst að yrði afleiðing af þeirri tillögu sem við ræðum hér, að veikja ríkisútvarpið til að styrkja hinn hlutann. Mér finnst það ekki rétt nálgun. Þá værum við svolítið að mínu mati, án þess að ætla okkur það, að veikja þá geira sem ég var að nefna hér, sem er þessi ört stækkandi kvikmyndageiri, sem er síðan líka í því að þjónusta erlenda aðila sem hingað koma til að taka upp kvikmyndir og þætti og annað. Þannig að þó að það sé ekki hugsunin á bak við tillöguna eða hugmyndina hér í dag þá yrði það afleiðingin að þetta myndi allt veikjast. Þegar við ræðum Ríkisútvarpið höfum þá í huga að hlutverk þess er miklu stærra og viðameira en við upplifum oft í opinberri umræðu.

Ég veit að það eru miklir peningar sem fara í Ríkisútvarpið. Ég er almennt þeirrar skoðunar með þessar menningarstofnanir okkar, þær stærstu og veigamestu, að við eigum að styðja vel við bakið á þeim. Við megum hins vegar ekki hafa fyrirkomulagið þannig, og þar er ég sammála hv. þingmanni og þeim sem flytja málið, að ríkið sé einhver kæfandi hönd á þessum markaði. Þetta má ekki vera þannig að ríkið taki súrefni af öllum einkaaðilum. Ég er því mjög ánægður með að við skulum vera að ræða þetta, en mér finnst að við þurfum að taka þetta allt í samhengi; Ríkisútvarpið, einkamiðla, kvikmyndagerð og allan þann stóra bransa sem hérna er undir.

Ég ætla ekki að hafa þetta lengra í bili.