152. löggjafarþing — 8. fundur,  9. des. 2021.

ráðstöfun útvarpsgjalds.

129. mál
[16:47]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka andsvarið. Ég ætla í sjálfu sér ekki að teikna upp eitthvert nýtt módel af því hvernig mér finnst að Ríkisútvarpið ætti að vera. Allt er breytingum háð í samfélaginu og Ríkisútvarpið var auðvitað stofnað á sínum tíma, hefur síðan tekið einhverjum breytingum og við getum ekki horft fram hjá þeirri staðreynd að það er einhvers konar truflun á milli Ríkisútvarpsins og einkareknu miðlanna. Við þurfum að takast á við það en ekki með því að veikja Ríkisútvarpið heldur með því að styrkja hina eininguna.

Ég ætla ekkert að segja að það eigi ekki að framleiða þennan þátt eða hinn eða ekki að vera með þessa stöð eða að Rás 2 ætti að vera öðruvísi eða ekki, ég ætla ekkert að leggja mat á það. Ég er bara að segja: Við eigum ekki að hræðast þessar breytingar og við eigum ekki að halda að Ríkisútvarpið, frekar en aðrar stofnanir samfélagsins, sé eitthvert módel sem við búum til í eitt skipti fyrir öll og að þannig eigi það að vera um aldir alda. Við hljótum að þurfa að taka mið af því að þetta er auðvitað markaður og bransi sem er á fleygiferð, ekki bara hér innan lands heldur úti um allan heim. Það eru stafrænar breytingar og alls konar tækniframfarir sem kalla auðvitað á ákveðnar endurhugsun að ýmsu leyti líka.

Það menningarefni sem ég er að tala um þarf ekki að framleiða allt innan húss á RÚV. Það eru ákveðnar reglur og skilyrði um að hluti af því þurfi að vera framleitt utan húss og það er einmitt til þess að styrkja litla framleiðendur sem geta þá selt efni sitt þangað eða jafnvel selt þjónustu til Ríkisútvarpsins. Þannig að það allt má hanga saman.

Ég er bara að segja: Veikjum ekki Ríkisútvarpið til að styrkja hina. Höldum Ríkisútvarpinu eins sterku og við getum og styrkjum frekar hina eininguna. Ég er algerlega sannfærður um að þannig fáum við mest fyrir aurinn og að þannig verði líka til mest menningarverðmæti. Og ég trúi að við séum öll hér í þessum sal nokkuð sammála um að okkur ber rík skylda til að sjá til þess að stofnanir samfélagsins sem sinna menningarmálum eigi að standa vörð um menningararfinn.