152. löggjafarþing — 8. fundur,  9. des. 2021.

ráðstöfun útvarpsgjalds.

129. mál
[16:54]
Horfa

Flm. (Bergþór Ólason) (M):

Frú forseti. Þar sem mér stendur ekki til boða að fara í þriðja andsvar við hv. þm. Sigmar Guðmundsson þá ákvað ég að fara í stutta ræðu. Það er vissulega ýmislegt sem hv. þingmaður sagði í andsvari sínu sem skiptir máli í þessari umræðu. Það eru nefnilega aðrar aðgerðir. Aðrar aðgerðir í þessum efnum hafa undanfarin ár og áratugi að miklu leyti falist í því að flækja og þvæla rekstrarumhverfi fjölmiðla. Við erum komin með alls konar eftirlitsiðnað og skýrslugjöf og annað sem þessir miðlar þurfa að standa í, sem er auðvitað kostnaður sem miðlarnir fá hvergi tekjur inn á móti fyrir. Og af því að hv. þingmaður sagði í svari áðan að það kæmi til greina að draga úr auglýsingatekjum hjá Ríkisútvarpinu en þá yrði eitthvað annað að koma á móti, þá held ég að það sé hlutur sem þarf að eiga sér stað í öllu fjölmiðlaumhverfinu.

Við þurfum að leita leiða til að draga úr kostnaði þeirra sem standa í þessum rekstri. Unnin var skýrsla sem kom út árið 2018, minnir mig, ég man ekki ártalið nákvæmlega, þar sem voru útlistaðar ýmsar mögulegar leiðir. Það er hægt að eiga við tryggingagjald gagnvart starfsmönnum. Það er hægt að horfa til þess hvernig virðisaukaskattsskyldu er háttað á tekjustreymi fjölmiðla en það sem ég held að myndi skipta mestu máli og hraðast væri að reyna að einfalda rekstrarumhverfi þeirra þannig að þeir væru ekki undir þeirri kæfandi hönd, eins og við orðuðum það hér áðan, að það væri eitthvert eftirlitsbatterí úti í bæ sem fjölmiðlar þyrftu að sýna fram á með reglulegri skýrslugjöf að þeir sinntu sínu starfi. Við þekkjum það nú bara, fjölmiðlar eru mismerkilegir og misburðugir og ég hef ekkert óskaplega miklar áhyggjur af því að einhverjir sitji og skrifi fréttir með eigin nefi sem þeir bera bara ábyrgð á og vefur viðkomandi aðila er metinn út frá því hvernig gildi frétta á þeim miðli þróast. Ég held að kvöðin sem er lögð á þennan geira í heild sinni út frá eftirlitskerfinu öllu sé allt of mikil og óþörf. Við eigum að leita leiða til að einfalda það og draga þannig úr kostnaði miðlanna. Og við eigum að leita leiða til þess að þessir miðlar haldi meiru eftir af þeim tekjum sem þeir geta aflað sér, hvort sem það er t.d. með því að höndla tekjustreymi þeirra með öðrum hætti hvað virðisaukaskatt varðar, hafa einhverjar ívilnanir gagnvart tryggingagjaldi og fleiri hugmyndir gætu komið þar til. En ég held að þessi umræða um stóru myndina ætti vel heima hér í sölum þingsins, hvort sem það yrði gert í nefnd eða hver hátturinn væri á, en hún gæti tengst því með hvaða hætti Ríkisútvarpið þróast.