152. löggjafarþing — 9. fundur,  13. des. 2021.

ákvörðun um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn.

152. mál
[15:58]
Horfa

utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Virðulegi forseti. Með þessari þingsályktunartillögu er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn (endurbótalýsing verðbréfa) og fella inn samninginn reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2021/337 frá 16. febrúar 2021 er varðar endurbótalýsingu ESB og markvissar aðlaganir fyrir fjármálamilliliði til að stuðla að endurbótum í kjölfar Covid-19 faraldursins. Reglugerðin, sem felld verður inn í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar frá 10. desember sl., er hluti af hinum svokallaða endurbótapakka fyrir fjármagnsmarkaði sem Evrópusambandið samþykkti til að styðja við bata eftir efnahagsáfallið sem Covid-19 heimsfaraldurinn hefur valdið. Ein þeirra ráðstafana sem felast í reglugerðinni er breyting á fyrirkomulagi lýsinga í því skyni að gera útgefendum og aðilum á fjármálamarkaði kleift að draga úr kostnaði og losa um fjármagn fyrir endurbótaferlið.

Lýsing er samheiti yfir skjöl sem gefa þarf út vegna almenns útboðs verðbréfa eða töku verðbréfa til viðskipta á skipulegum markaði. Þeim er ætlað að gera fjárfestum kleift að taka upplýsta fjárfestingarákvörðun. Endurbótalýsing verðbréfa er einfaldaðra fyrirkomulag slíkrar upplýsingagjafar og er hér því um ívilnandi ráðstöfun að ræða fyrir fjármálafyrirtæki.

Gildistími reglugerðarinnar er afar skammur og hefur nú þegar tekið gildi innan ESB. EES-ríkin innan EFTA hafa ríka hagsmuni af því að fyrirtæki innan þeirra sitji við sama borð og aðrir aðilar á innri markaðnum við aðgengi að fjármagni við endurfjármögnun í kjölfar Covid-19 faraldursins. Því er mikilvægt að umrædd gerð geti tekið gildi sem fyrst eftir að hún hefur verið tekin upp í EES-samninginn. Gerðin krefst lagabreytingar hér á landi og verður hún innleidd með breytingum á lögum nr. 14/2020, um lýsingu verðbréfa sem boðin eru í almennu útboði eða tekin til viðskipta á skipulegum markaði, og mun fjármála- og efnahagsráðherra leggja fram frumvarp þar að lútandi í þessum mánuði. Ekki er gert ráð fyrir að innleiðing gerðarinnar hafi veruleg áhrif á stjórnsýslu eða fjárhag ríkisins.

Virðulegur forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að tillögunni verði vísað til hv. utanríkismálanefndar.