152. löggjafarþing — 9. fundur,  13. des. 2021.

samningur milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu árið 2022.

166. mál
[16:15]
Horfa

utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla að leyfa mér að svara þessu passlega loðið og segja ekki neitt sem ég þyrfti mögulega draga til baka, enda væri það mjög viðkvæmt ef ég gerði það. Þannig að ég þori ekki að segja nákvæmlega til um hvar slík samtöl eru stödd eða hvers er að vænta. En við vitum auðvitað að stundum hefur verið tekist á um þessi mál enda miklir hagsmunir þar undir. Ef hv. þingmaður vill skýrari svör þá er lítið mál að afla þeirra og hvort sem það er með óformlegum hætti eða í gegnum óundirbúna fyrirspurn eða skriflega fyrirspurn þá skal ég tryggja það að vera búin að kanna það aðeins nánar þegar að því kemur. En auðvitað eru þessi samskipti lifandi. Núna erum við að vinna að því að komast út úr því fyrirkomulagi að vera alltaf að koma með samning hér korteri fyrir jól fyrir næsta ár. Við vorum að vona að við gætum farið í gegnum hið nýja fyrirkomulag hvað það varðar fyrir þessi jól. En það tekur örlítið lengri tíma þannig að við munum vonandi klára það á fyrri hluta næsta árs þannig að það verður alla vega komið í annan farveg þá. En hvað varðar aðrar samningaviðræður og þessi samskipti læt ég duga að svara með þeim hætti sem ég hef hér gert.