152. löggjafarþing — 12. fundur,  16. des. 2021.

forgangsröðun ríkisútgjalda.

[14:16]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Það er full ástæða til að byrja á því að taka undir með hæstv. ráðherra. Við höfum ekki verið nógu góð í að greina raunverulega stöðu, raunverulegan sparnað, raunverulegan ávinning af fjárfestingum vegna þess að það skortir gögn. Það skortir heildarmynd í ríkisfjármálunum, það skortir langtímasýn. Ég vona að hæstv. ráðherra, sem er nú kominn með töluverða reynslu í sínu ráðuneyti, fari að huga að þessu í auknum mæli. En spurningin stendur eftir þótt ég telji að hæstv. ráðherra hafi nú farið langleiðina með að svara henni: Er hæstv. ráðherra tilbúinn við fjárlagagerð nú að velta því fyrir sér að verja meira fjármagni í að spara í heilbrigðiskerfinu á þann hátt að hætta að senda sjúklinga til útlanda í aðgerðir á einkastofum þar, sem eru jafnvel þrefalt, fjórfalt dýrari en hér? Eins og fyrrnefndur læknir, Hjálmar Þorsteinsson, nefndi í viðtali: Það eina sem kemur til baka til ríkisins þegar menn eru sendir til útlanda er flugvallarskatturinn.