152. löggjafarþing — 12. fundur,  16. des. 2021.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

167. mál
[15:05]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Virðulegi forseti. Við lestur þingsályktunartillögunnar og greinargerðar með henni mætti halda að um útpældar breytingar sé að ræða. Eru skýringarnar sem þar koma fram nokkuð sannfærandi lesi maður þær úr samhengi við aðra þætti sem þekktir eru af fyrri vinnubrögðum þessarar ríkisstjórnar og aðstæðum öllum. Hæstv. forsætisráðherra nefndi í ræðu sinni í gær rannsóknarskýrslu Alþingis, líkt og gert er í greinargerð með þingsályktunartillögunni. Rannsóknarskýrsla þessi, sem gefin var út í kjölfar rannsóknar á aðdraganda bankahrunsins, kom út árið 2010. Síðan eru liðin 11 ár. Nú veit ég ekki hvaða snjalli ráðgjafi ríkisstjórnarinnar þar var sem kokkaði upp fyrir þau þessa fínu froðu til að réttlæta þennan valdaskiptakapal sem hér hefur verið lagður í þeim tilgangi einum að tryggja öllum sinn hlut í þessu ríkisstjórnarsamstarfi, en ég verð að játa að við fyrstu sýn hljómar þetta bara nokkuð vel.

Í greinargerðinni segir, með leyfi forseta:

„Fyrirhuguð fjölgun ráðuneyta og breyting á heitum þeirra er lokaáfangi í umfangsmiklum breytingum á skipulagi Stjórnarráðs Íslands …“ Og hljómar þetta eins og lokaspretturinn á áralangri og ígrundaðri vinnu. Svo er ekki. Áfram heldur um þessar umfangsmiklu breytingar, með leyfi forseta: „… sem kynntar voru í tengslum við myndun nýrrar ríkisstjórnar í lok nóvember sl.“

Það eru tvær vikur síðan. Augljóst má vera að þessar breytingar og tilfærslur eru fyrst og fremst af flokkspólitískum ástæðum. Það hefur hæstv. fjármálaráðherra staðfest í svörum sínum þar sem hann hefur verið spurður út í val á ráðherrum og fleira þessu tengt. Það er auðvitað alvarlegt út af fyrir sig að ríkisstjórnin skuli haga sér með þessum hætti, hrista þvílíkt upp í stjórnsýslunni með tilheyrandi kostnaði sem enginn veit hver er, en líklegt er að hlaupi á hundruðum milljóna, án sýnilegrar nauðsynjar. Það sem gerir það enn alvarlegra er að margt bendir til þess að uppskiptingin sé alls ekki úthugsuð af hálfu ríkisstjórnarinnar. Þannig er jafnvel ekki útséð hvernig fer um samninga sem ráðuneytin hafa gert við aðila úti í bæ þar sem verkefnin sem um ræðir hafa verið flutt eitthvert annað að hluta eða í heild.

Það eru því ekki einungis starfsmenn Stjórnarráðsins sem eru í óvissu um það hvert og hvort þeir eiga að mæta í vinnuna í kjölfar þessa stórkostlega uppátækis formanna ríkisstjórnarflokkanna. Stóri vandinn er síðan auðvitað sá að við vitum hvernig þessi ríkisstjórn vinnur, og þetta er að mínu mati kannski það alvarlegasta við þetta allt saman vegna þess að þau vinnubrögð ganga þvert gegn fögrum yfirlýsingum í greinargerð með þingsályktunartillögunni. Samstaða ríkisstjórnarflokkanna snýst fyrst og fremst um það að skipta sér ekki af því sem þeim kemur ekki við, sem eru þau ráðuneyti og þeir málaflokkar sem úthlutað hefur verið til hinna svokölluðu samstarfsflokka: Þú sérð um þitt, ég sé um mitt.

Í greinargerð með tillögunni segir enn, með leyfi forseta:

„Eins og sjá má eru þessar breytingar á skipan ráðuneyta síðast en ekki síst til þess fallnar að fella ósýnilega múra stofnanamenningar og stuðla að samvinnu, samráði og samhæfingu innan Stjórnarráðsins.“

Hvernig á að efla samstarf, sem dæmi innanríkisráðuneytis, sem er stýrt af flokki sem hefur það í stefnu sinni að gera allt sem í hans valdi stendur til að koma í veg fyrir að fólk geti fest rætur hér á landi? Hvernig á að starfa með ráðuneyti sem hefur það að stefnu sinni að tryggja aðbúnað og réttindi þessa sama fólks þegar nú er búið að dreifa þessu á tvö ráðuneyti? Eitthvað ímynda ég mér að þetta samstarf eigi eftir að vera stirt þegar líður á kjörtímabilið nema hugmyndin sé sú að gera nákvæmlega eins og gert var á síðasta kjörtímabili, með því að hver skipti sér ekki af því sem honum kemur ekki við.

Hæstv. forsætisráðherra sagði í nýlegri kynningu á Kjarvalsstöðum í sama tóni og greinargerðin er: Þessar breytingar endurspegla áherslur okkar og líka einbeittan vilja til að láta Stjórnarráðið vinna saman sem samhenta heild.

Það er ekki nóg með að þau séu illa samhent og ósamstæð í stefnumálum, það er margt sem vekur grun um að ráðherrar þessarar ríkisstjórnar tali hreinlega ekki saman. Í umræðum um fjáraukalög sem fóru fram í þessum sal í gær kom hæstv. fjármálaráðherra upp í andsvör í umræðum um aðgerðir í þágu öryrkja í aðdraganda jóla og hvatti þingmenn sem kröfðu hann svara til að spyrja hæstv. félagsmálaráðherra út í málið, líkt og honum sjálfum kæmi þetta hreinlega ekkert við.

Þá er alveg ljóst að skiptingin er ekki í samræmi við hugsjónir þessara flokka eða stefnur, þessi nýja uppskipting. Hæstv. forsætisráðherra sagði í ræðu sinni í gær að hugmyndin með því að hafa orkuna með umhverfisverndinni hafi fæðst í tíma vinstri stjórnarinnar þegar þau settu á fót umhverfisráðuneytið. Ef við gefum umhverfisráðherranum á þeim tíma, árið 2010, hæstv. núverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Svandísi Svavarsdóttur, orðið í grein sem hún skrifaði í september 2010, þá segir hún þar, með leyfi forseta:

„Að mínu mati er það grundvallarþáttur í velferð þjóðarinnar að rannsóknir á auðlindum og ráðgjöf um nýtingu þeirra séu í skjóli frá nýtingarsjónarmiðum.“

Í greinargerðinni fyrir þessum breytingum er því um augljóst orðagjálfur að ræða og eftiráskýringar, líkt og hv. þm. Jóhann Páll Jóhannsson orðaði það hérna í gær. Þingsályktunartillagan hljómar ágætlega og væri óskandi að hún væri í takt við raunveruleikann. Reynslan af þessari ríkisstjórn, svo og orðum þeirra og gjörðum á þessu þingi hingað til, sýnir hins vegar með kýrskýrum hætti að svo er ekki. Þessi uppskipting ráðuneyta hefur einfaldlega ekkert með samstarf að gera, þverfaglegt samráð eða hreyfanleika á milli ráðuneyta. Tilgangur þessarar uppskiptingar er einfaldlega sá að tryggja öllum stjórnarflokkunum þá stóla sem þau krefjast út frá niðurstöðum kosninga og þeim sigrum og ósigrum sem þar voru unnir. Og í þetta á eyða allt að heilum milljarði af almannafé.