152. löggjafarþing — 12. fundur,  16. des. 2021.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

167. mál
[17:11]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka fyrir ágæta umræðu sem hér hefur orðið um þessa þingsályktunartillögu. Það er kannski ágætt að nefna það í upphafi, af því að hér hafa ýmsir þingmenn spurt, og ég hef fullan skilning á því að ekki fylgist allir hv. þingmenn með hverri einustu ræðu sem haldin er, að framlagning þessarar þingsályktunartillögu, og hafa hv. þingmenn, eins og t.d. hv. þm. Eyjólfur Ármannsson, lýst yfir efasemdum um þá aðferðafræði, er bundin í lög. Þessi lagaskylda er sett á forsætisráðherra við breytingar á lögum um Stjórnarráðið árið 2011. Hv. þingmaður hefur komið inn á það í nokkrum ræðum að mikilvægt sé að endurskoða lögin um Stjórnarráðið. Ég vil þá bara ítreka það sem kom fram í minni framsöguræðu, og raunar í stefnuræðunni líka, að það stendur til að endurskoða lögin um Stjórnarráðið. Það er verk sem tekur tíma og þarf að vanda til og þar mun ég óska eftir samráði við alla flokka sem eiga fulltrúa á Alþingi.

En það sem mér finnst áhugavert að taka út úr þessum umræðum er að ég heyri það að mjög margir hv. þingmenn segja a.m.k. að þeim finnist eðlilegt að framkvæmdarvaldið ráði því í raun og veru hvernig það skiptir verkum með sér. Það er mín skoðun. En hins vegar heyri ég það raunar að hv. þingmenn hafa líka mjög miklar skoðanir á því hvernig framkvæmdarvaldið eigi að skipta verkum og það er ekki nema eðlilegt. Ég tel um margt að það kerfi sem við erum með sé ákveðinn, ja, hvað getum við sagt, svona blendingur af kerfum í þeirri kerfisbreytingu sem reynt var að gera 2011 þegar ætlunin var að fara yfir í norræna kerfið eða kerfi sem líkist meira hinu norræna kerfi, en vegna mikillar andstöðu í þinginu var tekin upp sú aðferðafræði að forsætisráðherra skyldi leggja slíka þingsályktunartillögu fram.

Hér hafa margir nefnt kostnað. Ég vil þó ítreka það sem kom fram í framsöguræðu minni að sá kostnaður sem metinn hefur verið við þessa breytingu, þ.e. við stofnun nýrra ráðuneyta, er 450 millj. kr. auk 56 milljóna við nýjan ráðherra og tvo aðstoðarmenn, þannig að sá kostnaður liggur fyrir. Hér hefur ýmsu verið haldið fram um kostnað við fyrri flutninga, eins og að kostnaður við flutning jafnréttismála hafi numið 200 millj. kr. Fyrir því eru engin rök. Sá kostnaður fólst í stöðugildi eins skrifstofustjóra.

Þá kem ég að öðrum punkti sem hefur verið nefndur hér og það er hversu vel málaflokkar eru til þess fallnir að flytjast á milli ráðuneyta. Hér hefur verið nefnt að vel færi á því að heilar skrifstofur flyttust milli ráðuneyta. Ég get tekið undir það að slíkt einfaldar flutning málaflokka. Um er að ræða heilar skrifstofur sem flytjast á milli ráðuneyta. Gallinn er sá að ekki eiga allir málaflokkar skrifstofu í Stjórnarráði Íslands. Loftslagsmálin voru ekki hýst á sérstakri skrifstofu fyrr en árið 2020, þegar sérstök skrifstofa var stofnuð um loftslagsmál. Og enn merkilegra er að jafnréttismál voru ekki hýst á einni skrifstofu í Stjórnarráðinu fyrr en 2019, einmitt eftir téðan flutning yfir til forsætisráðuneytis. Því finnst mér ágætt að ítreka það sem ég kom að hér í einnar mínútu andsvari einhvern tímann í gærkvöldi, að það væri áhugavert fyrir hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd að fara yfir þann flutning og hvernig til hefði tekist og hvort fólk teldi að sú tilfærsla hefði farið vel með málaflokkinn, því að ég heyri það að hv. þingmenn hafa áhyggjur af breytingum.

Ég kom hér upp og reyndi að svara aðeins betur til um einstök málefni áðan og ítreka það hvað varðar málefni barna að í mennta- og barnamálaráðuneyti sjáum við fyrir okkur samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna, Barna- og fjölskyldustofu, Barnavernd og Greiningar- og ráðgjafarstöð. Hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir hefur rætt um umboðsmann barna sem var fluttur með forsetaúrskurði yfir til mennta- og barnamálaráðuneytis með þeim rökum að embættið hefur verið að taka að sér tiltekin verkefni á sviði framkvæmdarvaldsins í þágu aðgerðaáætlanirnar í þágu farsældar barna. Við höfum átt samtal við Salvöru Nordal sem fer með þetta embætti. Við erum sammála um að þörf sé á því að endurskoða hugsanlega þessa stöðu, þ.e. að embættið sinni framkvæmdaverkefnum. Það sé hugsanlega eðlilegra að embættið sé eingöngu í því verkefni að sinna eftirliti og aðhaldi. Og þá er eðlilegra að það embætti myndi heyra undir forsætisráðuneyti, nú eða jafnvel Alþingi, eins og hefur raunar verið rætt á stundum. Þetta vil ég ítreka að er ekki útrætt en ég er meðvituð um þær áhyggjur sem hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir kom hér að. Þá þurfum við líka að horfa til þess að skilgreina betur hvort embættið eigi fyrst og fremst að fara með verkefni á sviði eftirlits og aðhalds eða vera í beinum framkvæmdaverkefnum því að það breytir aðeins eðli embættisins.

Hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir nefndi líka sérstaklega Hús íslenskunnar og Árnastofnun sem heyra undir ráðuneyti háskóla, iðnaðar og nýsköpunar. Málnefndin og örnefnanefndin heyra undir menningarráðuneytið, en að öðru leyti heyrir Árnastofnun, sem er háskólastofnun samkvæmt lögum sem hv. þingmaður þekkir auðvitað mjög vel frá fyrri störfum, undir ráðuneyti háskóla.

Hér hafa ýmsir hv. þingmenn nefnt fjarskiptamálin sérstaklega. Ég fór aðeins yfir það í andsvari í gær og skil mætavel — ég tel nú rökin geta hnigið í báðar áttir, þ.e. annars vegar að fjarskiptin séu hugsuð fyrst og fremst sem hluti af innviðum landsins, en það má líka hugsa þau sem nauðsynlega undirstöðu fyrir þær hugvitsgreinar sem eiga heima í ráðuneyti háskóla, iðnaðar og nýsköpunar, og það er ástæðan fyrir því að þau eru þar.

Hér hafa hv. þingmenn viðrað áhyggjur af því að orðið geti rof á þjónustu við borgarana, jafnvel erindum ekki svarað eða annað slíkt. Ég ætla ekki að hafa þær áhyggjur. Ég hef reyndar þær áhyggjur oft, bara núna og löngu áður en þessi uppstokkun var gerð, að erindum sé ekki svarað nægilega hratt og skilvirkt. Það hefur ekkert að gera með þessar breytingar og það er eitthvað sem ég held að sé eilífðarverkefni ráðherra og þeirra sem fara með yfirstjórn ráðuneyta, að tryggja að brugðist sé við. Ég veit líka að það getur verið ærið verkefni. Ég þekki það sérstaklega úr ráðuneyti mennta- og menningarmála, sem ég stýrði eitt sinn, að þar námu erindi á hverju ári þúsundum, það voru stór og smá og margvísleg erindi sem þurfti að bregðast við, þannig að álagið getur oft verið mikið. En að sjálfsögðu verður hugað að því, sem og réttindum og kjörum starfsmanna, sem ég ítrekaði í gær og ítreka það líka í dag vegna orða sem hafa fallið hér í umræðunni í dag.

Ég vil segja það, af því að hér hefur líka verið rætt töluvert um hvort ástæða sé til að breyta og hvort þetta sé einhver stórkostlegur spuni og það hafi jafnvel einhver ráðgjafi mætt og skrifað þessa tillögu — ég veit að skrifstofa yfirstjórnar í forsætisráðuneytinu er mjög ánægð með að vera talin svona spennandi, því að þetta er skrifað af skrifstofu yfirstjórnar forsætisráðuneytis af þeim góðu lögfræðingum sem þar starfa, sem hafa nú kannski ekki talið sig vera svona gríðarlega „spiffy“, svo ég leyfi mér að sletta, frú forseti, og forseti getur áminnt mig hér á eftir fyrir það. En þetta er að sjálfsögðu unnið bara eins og hefðbundið plagg, skrifað samkvæmt lögum og reynt að vanda til þeirra verka og endurspegla þær áherslur sem finna má í stjórnarsáttmála.

Þá komum við aftur að því að það gilda önnur sjónarmið þegar við erum að skipuleggja ráðuneytin sem snúast um stefnu, pólitíska stefnumótun og áherslur ríkisstjórnar hverju sinni, og síðan ríkisstofnanir sem sinna öðrum og afmarkaðri verkefnum og lúta öðrum lögmálum þegar slíkar stefnumótandi ákvarðanir eru teknar. Mig langar að nefna það af því að hv. þm. Bergþór Ólason fór hér aðeins yfir hver áhrifin yrðu á nefndir þingsins. Þarna finnst mér við einmitt komin að ákveðnu lykilatriði, þ.e. að það er þingsins að ákveða og framkvæmdarvaldið á ekki að hafa skoðun á því hvort þingið ákveði að skipta verkum með einhverjum öðrum hætti út af þessari ákvörðun. Ég hef satt að segja þá skoðun sem þingmaður að þess þurfi bara alls ekki endilega og það sé ekkert athugavert við það að allsherjar- og menntamálanefnd haldi áfram að sinna menningarmálum þótt menningarmálin séu í ráðuneyti með viðskiptum og ferðaþjónustu. Það er það sem ég horfi til og dreg þá fyrirmyndirnar m.a. frá Danmörku og Noregi, þar sem þingnefndirnar eru sjálfstæðar og nálgast verkefnin eins og þær, þ.e. þingið á hverjum tíma metur best, og hins vegar að framkvæmdarvaldið skiptir með sér verkum og er einmitt mjög færanlegt. Ég held hins vegar að til lengri tíma sé það sérstakt verkefni að hugsa Stjórnarráðið með þeim hætti að það sé hreyfanlegra í eðli sínu þannig að slíkir verkefnatilflutningar séu minna mál og veki minni usla því að ég held að það sé hollt og gott fyrir Stjórnarráðið, eins og aðrar stofnanir í samfélagi okkar, að geta tekist á við breytingar bæði innan húss sem utan. Ég horfi á þessar breytingar sem töluverð sóknarfæri þar sem ólíkir málaflokkar geta notið nýrra samlegðaráhrifa með öðrum málaflokkum og jafnvel nýjar hugmyndir og ný þekking orðið til.