152. löggjafarþing — 14. fundur,  21. des. 2021.

fjáraukalög 2021.

174. mál
[16:03]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér nefndarálit við frumvarp til fjáraukalaga frá meiri hluta fjárlaganefndar. Ég þakka framsögumanni, hv. þm. Haraldi Benediktssyni, fyrir framsöguna. Það kemur skýrt fram að einróma samstaða var innan nefndarinnar um þessar 53.000 kr. til öryrkja, sem er frábært mál. En mig langar að vita hvort einhver umræða hafi farið fram um þann hóp eldri borgara sem hefur það verst, hvort þeir hafi eitthvað verið til umræðu og reynt hafi verið að finna grundvöll til að hjálpa þeim. Eins og áður hefur komið fram fengu öryrkjar Covid-greiðslu í fyrra og fá aftur núna, en eldri borgarar hafa ekki fengið krónu í þessu samhengi. Við megum heldur ekki gleyma því að talað hefur verið um desemberuppbót til þeirra en hún skilar sér ekki vegna þess að skerðingarnar eru það brattar að margir lenda í því að fá lítið sem ekkert. Ónafngreindur eldri borgari benti t.d. á að það dygði ekki einu sinni fyrir hangilæri hvað þá meira, það sem hann fékk í desemberuppbót. Ég spyr hvort þetta hafi verið rætt. Svo langar mig líka að fá skýringu á því hvers vegna kostnaður vegna framkvæmda við bólusetningu og kostnaður vegna skimunar á landamærum er settur saman. Hvað kostaði bólusetningin og hvað kostaði skimunin á landamærunum?