152. löggjafarþing — 14. fundur,  21. des. 2021.

fjáraukalög 2021.

174. mál
[16:13]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Haraldur Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvar hans og þær spurningar sem hann réttilega velti upp. Af hverju hættum við ekki að borga? Ég held að ég reyni að þræða á perlufestina svör við þessum mörgu spurningum (BLG: Þetta er bara ein spurning.) sem hv. þingmaður setti hér fram. Þó að hann vilji láta það kjarnast utan um eina spurningu langar mig samt að ræða notkun fjárheimilda og þeirra marka sem við setjum. Almenna reglan er sú að ekki er greitt ef fjárheimildir eru ekki til. Hins vegar þurfum við líka að sýna sveigjanleika, t.d. þegar kemur að lyfjakostnaði. Það er ekki gott að stoppa lyfjakaup og þess vegna hefur það oftar en ekki verið regla að við sækjum fjárheimild vegna framúrkeyrslu í lyfjagreiðslum til fjáraukalaga. Það er ekki góður siður. Þetta var málaflokkur sem við vorum æðioft með í fjáraukalögum undanfarinna ára, breyttist þar sem betri árangur náðist í stýringu fjármagns vegna lyfjakaupa.

Hann nefnir kvikmyndaframleiðendur. Þeir sitja þá eftir og fá ekki gerða upp samninga sína ef fjárheimildin er búin.

Varðandi NPA-samninga held ég að fjöldi samninga sé ekki mælikvarði sem er mjög gott að nota því að samningar eru mjög misdýrir. En við vitum það, virðulegi forseti, við hv. þm. Björn Leví Gunnarsson og ég sem höfum setið í fjárlaganefnd í nokkurn tíma, að málaflokkurinn og NPA-samningarnir þyrftu annað og betra utanumhald en við höfum séð hingað til.

Varðandi þann þátt sem hv. þingmaður nefnir, Hefjum störf, þá held ég að það sé eitt af þeim úrræðum, vinnumarkaðsúrræði, sem hefur hvað best tekist til að beita á þessu ári, enda hafa nokkur fjáraukalög verið lögð fram, ég held að verðmætið í því að koma fleirum út að vinna hafi verið slíkt og þó að fjárheimildin hafi (Forseti hringir.) — ég kem nánar að því í seinna andsvari mínu, virðulegur forseti.