152. löggjafarþing — 14. fundur,  21. des. 2021.

fjáraukalög 2021.

174. mál
[17:01]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Forseti. Ástæðan fyrir því að ég er einungis að fjalla um þetta eina verkefni er einfaldlega sú að það er langstærst í þessu fjáraukalagafrumvarpi. Ég fjalla líka aðeins nánar um það í nefndaráliti um fjárlög. Í rauninni stal ég texta frá sjálfum mér í þessu frumvarpi, hægt að tala um smáritstuld. Það var einfaldlega tímaskortur sem olli því, langmestur tími okkar fór í vinnu við fjárlögin. Þegar kom að því að afgreiða fjáraukann aðeins hraðar en áætlað var út af eingreiðslunni, af því að það þurfti að gerast skömmu fyrir jól, einhenti ég mér í að vekja athygli á þessu eina stóra atriði, sem er í alvörunni gríðarlega slæm meðferð á því formi sem heitir fjáraukalög, á því hvernig lög um opinber fjármál skilgreina fjáraukalög. Í fjáraukalögum er verið að leita eftir fjárheimildum fyrir einhverju sem var óvænt og ófyrirséð o.s.frv. En ekkert af þessu var ófyrirséð. Það er hægt að reikna svo auðveldlega út hvað það kostar að greiða fyrir þetta mörg störf í þetta marga mánuði. Það er í raun ekkert fyrirsjáanlegra en það. Það var einfaldlega tímans vegna sem ég lagði ekki áherslu á fleiri verkefni og ætla þá ekkert að fjalla neitt sérstaklega mikið um önnur verkefni hvað það varðar. Ef við fengjum meiri tíma þá gætum við talað um miklu, miklu meira, það er alveg rétt.