152. löggjafarþing — 14. fundur,  21. des. 2021.

fjáraukalög 2021.

174. mál
[17:18]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Jóhann Páll Jóhannsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er áleitin spurning sem hv. þingmaður varpar hér fram. Sjálfur sit ég í efnahags- og viðskiptanefnd þar sem við erum með bandorminn til umfjöllunar. Þar kemur það manni á óvart, í ljósi þess að ríkisstjórnin hefur tekið ákveðið stökk að því er varðar það markmið sem að er stefnt í loftslagsmálum — nú er stefnt að því að draga úr losun um 55% fyrir 2030, — að það endurspeglast ekki með neinum hætti í fjárlögum og fjárlagabandormi næsta árs.

Hvað varðar tekjuhliðina er kannski erfitt að fara að grípa — við viljum ekki fara að skattleggja árið 2021 afturvirkt, en auðvitað hefði maður ætlað að ráðist yrði í einhverjar aðgerðir á útgjaldahliðinni í loftslagsmálum árið 2021. En það sama er reyndar uppi á teningnum varðandi tekjuhliðina, að á fjárlagaárinu 2022 er ekki gert ráð fyrir að neinu ráði að grænni tekjuöflun og skattheimtu verði beitt t.d. til að hraða orkuskiptum. Við sjáum ekkert stökk í þeim efnum. Við sjáum t.d. að kolefnisgjald hækkar um 2,5%, langt undir verðlagsvísitölu, sem felur í raun í sér raunlækkun kolefnisgjalds. Var ekki verðbólgan að mælast síðast einhvers staðar á bilinu 4–5%? Þetta minnir mann auðvitað á að þegar ríkisstjórn hæstv. forsætisráðherra Katrínar Jakobsdóttur tók við árið 2017 gerði hún það að einu af sínum fyrstu verkum að hætta við hækkun kolefnisgjalda, sem höfðu verið áformuð af fyrri ríkisstjórn í fjármálaráðherratíð Benedikts Jóhannessonar. Þannig að þetta er auðvitað athyglisvert framhald af því.