152. löggjafarþing — 14. fundur,  21. des. 2021.

fjáraukalög 2021.

174. mál
[17:20]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Mig langaði að þakka hæstv. hv. þingmanni fyrir umfjöllunina um fjármagnskostnað ríkisins og hvernig má í raun segja að ekki hafi verið reiknað með þeirri verðbólgu sem í stefndi. Þetta hefur þær afleiðingar að það er í rauninni aukakostnaður upp á 13 milljarða, eins og kemur fram í nefndarálitinu. 13 milljarðar eru há upphæð og við erum hér stundum að berjast fyrir 1 milljarði fyrir öryrkja eða eitthvað slíkt. Þá vakna upp ýmsar spurningar. Nú var t.d. hæstv. fjármálaráðherra í viðtali í dag og hann var spurður um þá verðbólgu sem nú er komin upp fyrir 5%. Hann sagði: Þetta er bara erlend verðbólga, eins og hún hefði engin áhrif hér á landi þrátt fyrir það. Hvað telur hv. þingmaður að við þurfum að gera til að tryggja að við fáum ekki enn þá hærri bakreikninga á næsta ári? Við vitum það að verðbólgan er komin upp fyrir 5%. Samt eru allar áætlanir í fjárlögum á næsta ári upp á 2,5%. Er ekki nauðsynlegt að gera eitthvað í þessum málum svo þetta sé eitthvað aðeins nákvæmara á næsta ári?