152. löggjafarþing — 14. fundur,  21. des. 2021.

fjáraukalög 2021.

174. mál
[17:38]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Eyjólfur Ármannsson) (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni andsvarið. Jú, þetta er alger skortur á fyrirsjáanleika og það að draga þetta svona lengi leiðir líka til þess að vonandi fá öryrkjar þessa eingreiðslu fyrir Þorláksmessu eða á Þorláksmessu. Forsendurnar fyrir eingreiðslunni í fyrra voru heimsfaraldurinn, Covid. Þær forsendur hafa ekkert breyst, það eru nákvæmlega sömu forsendur núna, þannig að það að koma ekki með þetta strax í fjárlagafrumvarpinu og gera ekki ráð fyrir þessu er algjörlega óskiljanlegt.

Nú eru allir hér inni með grímu nema ég, við vitum að Covid-ástandið er ekki betra en fyrir ári síðan, sennilega verra, og ástandið er verra hjá þessum fátækasta hópi þjóðarinnar, öryrkjum og öldruðum líka. Við höfum verið lengi í heimsfaraldri og verðbólga og fleiri atriði spila inn í þannig að fyrir mér er þetta algjörlega óskiljanlegt. Þetta sýnist svolítið vera viðhorfið en okkur tókst með samstöðu í stjórnarandstöðunni og þrotlausri baráttu að ná þessu í gegn. Ég held að það hafi verið þrýstingur og samstaða stjórnarandstöðunnar sem var hér að verki. Þetta er eitt helsta baráttumál mál Flokks fólksins og búið að vera það, hann var stofnaður um hagsmuni þessa hóps. En þetta kallar á viðhorfsbreytingu hjá þingmeirihlutanum og ríkisstjórninni.