152. löggjafarþing — 14. fundur,  21. des. 2021.

fjáraukalög 2021.

174. mál
[18:07]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Loga Einarssyni fyrir prýðisgóða ræðu. Hann er eins og góður ræðumaður, hann blandar saman súru og sætu til að allir fái eitthvað fyrir sinn snúð. Manni finnst stundum þegar maður stendur í þessari pontu — og ég hef ég nú gert það í nokkur ár þó að nú hafi orðið hlé á og ekki víst að ég verði hér margoft, en hvað um það — manni finnst stundum eins og maður sé alltaf að endurlifa sama daginn, sama atburðinn. Nú er ég búinn að taka þátt í umræðu af þessu tagi í nokkur ár, eða nokkur áramót, skulum við segja, og stemningin er sérkennileg. Ég fékk örlítinn kjánahroll þegar ég stóð hér úti, fyrir aftan Alþingishúsið, og sá jólasveininn uppi á vegg Ráðhússins, held ég, sem er alltaf að drösla pokanum og endurtekur það sífellt. Mér fannst það sem við erum að tala um einhvern veginn minna svolítið á þennan jólasvein. Nú er ég alls ekki að vísa til ræðu hv. þingmanns, svo að það sé alveg skýrt tekið fram, en við erum alltaf að ræða þetta sama, um fyrirsjáanleikann, þetta gangverk sem við byggjum fjárlögin, fjáraukalögin og lögin um opinber fjármál á. Það er alltaf einhvern veginn það sama uppi á teningnum, að fyrirhyggjan sé svo lítil. Auðvitað vitum við að tímarnir hafa verið skrýtnir. Þeir voru mjög skrýtnir í fyrra og þar á undan. En þeir hafa ekkert verið svo ofboðslega skrýtnir núna. Þetta er viðvarandi ástand en samt eru menn alltaf að vanáætla og vangera og rjúka síðan til (Forseti hringir.) með fjárauka. Ég er ekki að segja að það sé ekki margt í honum sem eigi fullan rétt á sér. En ég vildi bara leyfa mér (Forseti hringir.) að spyrja hv. þingmann: Hvernig stendur á því að ekki er hægt að rífa sig upp úr þessu hjólfari og að hæstv. ríkisstjórn megnar það ekki?