152. löggjafarþing — 14. fundur,  21. des. 2021.

fjáraukalög 2021.

174. mál
[18:57]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Bryndísi Haraldsdóttur fyrir andsvarið. Jú, ég get verið henni alveg innilega sammála. En ef við horfum á staðreyndir þá erum við ekki búin að tala um fjáraukann í nema þrjá klukkutíma. Það er ekki mikil umræða og mér sýnist að þetta gangi ágætlega og ég held að allir séu sammála um að þetta sé eitthvað sem við munum klára núna af því að við vitum að það liggur á þessu. Þetta þarf helst að greiða út á morgun, í síðasta lagi á Þorláksmessu. Við vitum að þarna úti er fólk sem bíður hreinlega eftir að við klárum þetta. Ég hef enga trú á öðru en að við gerum það og gerum það með sóma. En ég held samt að við verðum aðeins að hafa þolinmæði fyrir því að það þarf aðeins að tjá sig um þetta. Í heildarsamhenginu held ég að þrír eða fjórir tímar séu ekki rosalega mikil umræða.