152. löggjafarþing — 15. fundur,  21. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[20:46]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar. Nefndin fjallaði um frumvarpið á fjölmörgum fundum og fékk til sín helstu umsagnaraðila og ráðuneyti. Auk umsagna um frumvarpið sjálft bárust nefndinni erindi og óskir sem fólu í sér beiðni um stuðning, hreinar fjárbeiðnir eða beiðnir um viðbótarframlög. Nefndin fylgdi því verklagi að áframsenda slíkar beiðnir til ráðherra málaflokksins. Það er í samræmi við ábyrgð ráðherra, sem kemur helst fram í 20. og 21. gr. laga um opinber fjármál, á þeim málefnasviðum og málaflokkum sem undir hann heyra. Þá hefur nefndin í ríkara mæli en áður kallað eftir bæði skýringum og rökstuðningi ráðuneyta vegna einstakra mála sem fram komu í umsögnum og á fundum með umsagnaraðilum. Undanfarin ár hefur það tíðkast að senda skriflegar fyrirspurnir og beiðnir um minnisblöð og hefur sá háttur verið hafður á eins og áður. Að sjálfsögðu vorum við í mikilli tímaþröng að þessu sinni og því hefur ekki öllum fyrirspurnum verið svarað.

Gerðar eru breytingartillögur við sundurliðun 1, þ.e. tekjuáætlun frumvarpsins, um ríflega 3,2 milljarða til hækkunar tekna og við sundurliðun 2, sem eru gjaldaheimildir málefnasviða og málaflokka, um tæpa 14 milljarða kr. til hækkunar gjalda. Heildarafkoman verður þá sem því nemur neikvæð um rétt um 180 milljarða á næsta ári og er það líklega varlega áætlað en þó rúmast innan þess óvissusvigrúm sem fjármálastefnan leyfir. Hallinn verður samkvæmt þessu um 5% af vergri landsframleiðslu og í töflunni sem finna má í nefndarálitinu koma fram breytingar á 1. gr. frumvarpsins þar sem gjöld og tekjur eru sundurliðuð samkvæmt alþjóðlegum hagskýrslustaðli.

Frumvarpið er lagt fram í samræmi við lög um opinber fjármál þar sem segir í 16. gr. hvernig tölugrunnur frumvarpsins er byggður upp og settur fram og auðvitað skal það vera í samræmi við markmið gildandi fjármálaáætlunar sem við samþykktum hér á Alþingi 31. maí og tekur til áranna 2022–2026.

Samhliða frumvarpinu var lögð fram fjármálastefna nýrrar ríkisstjórnar eins og tilgreint er í lögunum þar sem áætluð afkoma og skuldir ríkissjóðs samkvæmt frumvarpinu eru vel innan þeirra marka sem tilgreind eru í stefnunni. Á næsta ári er áætlað að halli af rekstri ríkissjóðs verði um 4,7% af vergri landsframleiðslu en í stefnunni er hámarkið sett við 5,5% af vergri landsframleiðslu. Endurreisn efnahagslífsins og ríkisfjármálanna í kjölfar heimsfaraldursins er stærsta verkefnið við upphaf þessa kjörtímabils og meginmarkmið ríkisfjármálaáætlunarinnar fólust í því að vaxa út úr kreppunni sem leiddi af heimsfaraldri kórónuveirunnar og við erum enn að berjast við. Þess vegna má segja að áherslur og forgangsmál frumvarpsins séu í beinu framhaldi af stefnumörkun áætlunarinnar. Gert er ráð fyrir að aðhaldsstig ríkisfjármála verði aukið á næsta ári og dregið úr hallarekstri án þess að hamla viðspyrnu hagkerfisins og leiðarljósið er áfram að stuðla að efnahagslegum stöðugleika.

Það er nauðsynlegt að endurheimta styrka fjárhagsstöðu ríkissjóðs og tryggja sjálfbærni ríkisfjármála til lengri tíma. Þá þarf ríkisfjármálastefnan að vinna með peningastefnunni og stuðla að lækkandi verðbólgu og efnahagslegum stöðugleika. Komið hafa fram sterkar vísbendingar um að þær fjölmörgu aðgerðir sem gripið var til vegna efnahagslegra áhrifa heimsfaraldursins hafi skilað góðum árangri, svo sem eins og að landsframleiðslan er nú talin meiri en bjartsýnasta sviðsmyndin sem við vorum með í síðustu fjárlögum sýndi. Atvinnuleysi hefur sem betur fer minnkað hratt og áætlað er að afkoma ríkissjóðs batni talsvert.

Í meginatriðum er útfærsla frumvarpsins í samræmi við stefnumið þeirrar fjármálaáætlunar sem við samþykktum í vor. Hins vegar er gert ráð fyrir betri afkomu en áætlað var í vor vegna betri efnahagshorfa, þótt kannski horfi eitthvað svartara fram undan núna miðað við ástand kórónuveirunnar, en þá var ætlað áætlað að halli næsta árs gæti orðið sem nemur um 6,6% af vergri landsframleiðslu. Nú er áætlað að hann verði um 4,7%, þar munar um 54 milljörðum. Afkomubatinn skýrist nær alfarið af hærri tekjum og tekjuáætlun hefur verið uppfærð miðað við nýja þjóðhagsspá sem gerir ráð fyrir kröftugri hagvexti en gengið var út frá í fjármálaáætluninni. Gert er ráð fyrir 66 milljarða hærri tekjum en á gjaldahlið eru líka breytingar tengdar þjóðhagsspánni, t.d. hækkanir vegna hærra verðlags og vaxtastigs en á móti vegur lægra atvinnuleysi.

Að auki hafa bæst við nokkur brýn mál sem nú er gert ráð fyrir í frumvarpinu. Þar má nefna viðbót til reksturs Landspítalans sem að hluta til tengist heimsfaraldri, svo sem opnun hágæslurýma og endurhæfingarrýma, framlög til kaupa á bóluefni og svo er líka gert ráð fyrir því að staðið verði undir nemendafjölgun í framhalds- og háskólum. Auk þess var tekin ákvörðun um sérstaka 1% viðbótarhækkun bóta örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega og hækkun frítekjumarks atvinnutekna ellilífeyrisþega. Til þess að viðbótarprósentið skili sér í vasa örorkulífeyrisþega lækkar skerðingarhlutfall grunnlífeyris örorkulífeyris og aldurstengdrar örorkuuppbótar þannig að það fer úr 25% í 11% sem mun eyða því sem kallað er fall á krónunni. Það er sem sagt mótvægisaðgerð sem er lausn sem nýtist til frambúðar, ekki síst í þeirri hugmyndafræði sem nýtt framfærslukerfi gerir ráð fyrir. Samanlagt leiða þessar hækkanir til 12 milljarða hækkunar gjalda umfram það sem samþykkt var í fjármálaáætlun.

Í greinargerð frumvarpsins er tafla á bls. 108 sem sýnir í stórum dráttum frávik frá fjárlögum yfirstandandi árs, bæði á tekna- og gjaldahlið. Skipting útgjalda og málefnasviða er svo sýnd í töflu á bls. 126.

Rammafjárlagagerð byggist á því að áhersla er lögð á breytingar milli ára. Á heildina litið hækka heildargjöld málefnasviða um samtals 11,4 milljarða kr. milli ára, þar af nema launa- og verðlagsbætur ríflega 37 milljörðum. Þar með lækka útgjöldin að raungildi um 25,8 milljarða milli ára. Lækkunin skýrist að miklu leyti af tímabundnum ráðstöfunum vegna heimsfaraldursins og þessar ráðstafanir eru margar hverjar að renna sitt skeið á enda.

Sundurliðun breytinga á einstök málefnasvið má finna í töflunni og eins og sjá má eru það tvö málefnasvið sem skýra yfirgnæfandi hluta lækkunarinnar að raungildi, annars vegar 45 milljarðar vegna vinnumarkaðar og atvinnuleysis þar sem atvinnuleysi á næsta ári verður væntanlega mun minna en í ár, eins og kemur fram í umfjöllun um efnahagshorfur. Síðan er 8,2 milljarða lækkun í samgöngu- og fjarskiptamálum þar sem sérstakt fjárfestingarframlag til samgönguframkvæmda sem var fjármagnað með umframarðgreiðslum frá fjármálafyrirtækjum fellur niður í kjölfar þess að því átaki lýkur á yfirstandandi ári. Jafnframt dregur úr sérstöku fjárfestingarátaki sem farið var í til að mæta efnahagssamdrætti vegna heimsfaraldursins.

Á móti vegur hækkun fjölmargra málefnasviða. Mest er hún 15,2 milljarðar til sjúkrahúsþjónustu sem m.a. skýrist af auknum viðbúnaði heilbrigðiskerfisins vegna heimsfaraldursins. Aðrar veigamiklar hækkanir koma fram á öðrum málefnasviðum heilbrigðismála sem og félagsmála. Samtals nemur heildarhækkun málefnasviða sem heyra undir ýmist heilbrigðisráðuneytið eða félagsmálaráðuneytið því um 44 milljörðum kr.

Í fjárhæðum talið er mesta hækkunin utan heilbrigðis- og félagsmála vegna vaxtagjalda, tæpir 6 milljarðar, og 4,3 milljarðar til sveitarfélaga og byggðamála. Vaxtakostnaður hækkar vegna hækkunar verðbóta af verðtryggðum lánum ríkissjóðs þar sem verðbólgan er nú áætluð hærri en áður var. Hjá málefnasviði sveitarfélaga munar langmestu um hækkun hjá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga vegna breytinga á lögbundnum tekjum sjóðsins sem fylgja hækkun skatttekna. Breytingar á milli ára hjá öðrum málefnasviðum eru hlutfallslega mjög misjafnar og skýrast oft af breytingum á stofnkostnaðarframlögum og það má finna betur og sjá í töflu á bls. 4 í nefndarálitinu.

Í efnahagsforsendum frumvarpsins er gert ráð fyrir að efnahagsbatinn verði öflugur á næsta ári en Hagstofa Íslands spáir 5,3% hagvexti. Það er nokkuð í samræmi við það sem aðrir helstu greiningaraðilar hafa verið að spá fyrir árið 2022 í nýlegum spám. Seðlabanki Íslands gerði til að mynda ráð fyrir 5,1% hagvexti og OECD var með 5% hagvöxt fyrir árið 2022. Helstu drifkraftar hagvaxtar á næsta ári eru aukinn útflutningur á vöru og þjónustu og einkaneysla.

Hagstofan áætlar að fjöldi ferðamanna á næsta ári verði um 1,4 milljónir. Það er nokkuð undir þeim fjölda sem var fyrir heimsfaraldur kórónuveirunnar þegar fjöldi ferðamanna fór mest í um 2 milljónir. Talið er að fjöldinn verði orðinn svipaður og fyrir faraldurinn á árunum 2023–2024.

Gert er ráð fyrir að verðbólga á næsta ári fari lækkandi en verði þó enn nokkuð yfir verðbólgumarkmiði Seðlabanka Íslands eða um 3,3%. Helstu orsakir verðbólgu hafa verið húsnæðisverð og erlendar verðhækkanir vegna hrávöru- og launahækkana. Þá er eins og áður sagði spáð minnkandi atvinnuleysi en horfur eru á að það verði að meðaltali um 6,5% í ár en gert er ráð fyrir að það verði í kringum 5,3% á næsta ári. Þess ber að geta að í forsendum fjármálaáætlunar sem samþykkt var í vor var gert ráð fyrir 4,8% hagvexti á næsta ári og hefur hagvaxtarspáin því hækkað um hálft prósentustig. Þó hafa verðbólguhorfur versnað frá síðustu hagspá Hagstofunnar. Þá var reiknað með 2,4% verðbólgu árið 2022 en nú, eins og fyrr segir, um 3,3%. Þarna bendi ég á töflu á bls. 5 sem sýnir samanburð á forsendum fjármálaáætlunar frá því í mars á þessu ári og forsendum þess frumvarps sem við fjöllum hér um. Reikna má með að hærri hagvaxtarspá og uppfærð verðlagsspá leiði til hærri tekna ríkissjóðs um í kringum 50 milljarða kr. Þá hefur minna atvinnuleysi áhrif á útgjöld vegna atvinnuleysisbóta því hvert prósentustig í atvinnuleysi kostar tæpa 7 milljarða kr.

Við hagspárgerð er sumt nokkuð auðvelt að sjá fyrir. Leiðandi mælikvarðar við hagspárgerð geta t.d. verið fjármál hins opinbera, fiskveiðikvóti næsta árs eða að einhverju leyti fjárfestingar. Það er hins vegar erfitt eða nánast ómögulegt að sjá fyrir t.d. þær miklu náttúruhamfarir sem við höfum orðið fyrir eða skaðvænlegan veirufaraldur og við höfum auðvitað séð hversu mikil áhrif það hefur á hagkerfið.

Þegar ljóst var að heimsfaraldur kórónuveiru hefði umtalsverð áhrif á hagkerfið breyttust forsendur fyrri spár með tilheyrandi aðlögun á hagvaxtartölum. Þá hefur faraldurinn valdið mikilli óvissu í hagspám, sérstaklega hvað varðar tímalengd á faraldrinum og fjölda erlendra ferðamanna. Þess ber að geta að eitt það mikilvægasta og jafnframt það flóknasta við kynningu á hagspám er að útskýra óvissuna í þeim. Því stöndum við kannski frammi fyrir akkúrat núna þegar ómíkron og önnur óáran heldur áfram eins og ekki enginn sé morgundagurinn. Síðasta spá Hagstofu Íslands fyrir heimsfaraldur kórónuveiru var í nóvember 2019. Þá var gert ráð fyrir hóflegum hagvexti árin 2020–2022 og í álitinu, á bls. 5, má sjá hvernig spáin um hagvöxt hefur breyst miðað við nýjustu spá Hagstofunnar, eða umtalsvert.

Virðulegi forseti. Eins og fram hefur komið í ályktuninni og í greinargerð frumvarpsins eru fjölmargar gjaldabreytingar milli ára tengdar tímabundnum aðgerðum vegna heimsfaraldursins. Í töflunni koma fram viðbætur vegna þess sem nema samtals um 7 milljörðum kr. en á móti eru niðurfellingar að fjárhæð 65 milljarðar. Þar er meginskýringin raungjaldalækkun milli ára og svo fjárfestingarátak frá 2021–2023 en það er undanskilið í þessari töflu.

Nefndin hefur sér til glöggvunar á útgjaldaþróun ríkissjóðs og framfylgd stefnu ríkisstjórnar tekið saman gögn um þróun útgjalda málefnasviða frá árinu 2017 og í þeim koma fram breytingar að raungildi á rammasettum útgjöldum málefnasviða frá því ári. Með rammasettum útgjöldum er ætlunin að gefa betri mynd af undirliggjandi útgjaldaþróun heldur en með því að miða við heildargjöldin. Þá eru lífeyrisskuldbindingar, vaxtagjöld og framlög vegna atvinnuleysis undanskilin. Svokölluð markaðsleiga sem stofnanir greiða til ríkisins er líka undanskilin í gögnunum þannig að árið 2017 sé sem best sambærilegt við það frumvarp sem við fjöllum um hér.

Frá árinu 2017 hafa rammasett útgjöld aukist mjög mikið eða um tæplega 213 milljarða kr., sem er 27% hækkun fram til þess frumvarps sem við erum hér að fjalla um. Hækkunin er mismikil eftir málefnasviðum og skýrist það af forgangsröðun ríkisstjórnar allt frá árinu 2017. Í fjárhæðum talið kemur langmesta hækkunin fram á málefnasviði sjúkrahúsþjónustu, tæpir 33 milljarðar, sem skýrist best af stofnkostnaði við nýjan Landspítala en einnig af verulegri raunaukningu til rekstrar. Næstmest hækka framlög vegna örorku og málefna fatlaðs fólks eða um 21 milljarð og endurspeglar það áherslur á að bæta kjör öryrkja sem og fjölgun þeirra, sérstaklega á fyrri hluta tímabilsins. Það hefur heldur dregið úr nýgengi örorku á síðastliðnum þremur árum sem betur fer.

Málefnasvið fjölskyldumála og málefni aldraðra hækka bæði um rúmlega 17 milljarða að raungildi á tímabilinu. Undir þá málaflokka flokkast ellilífeyrir sem hækkaði verulega árið 2017 í kjölfar kerfisbreytingar. Fæðingarorlof og annar stuðningur við fjölskyldur og börn hækkar líka verulega. Hlutfallslega er hækkunin mun meiri vegna fjölskyldumála sem skýrist að miklu leyti af lengingu fæðingarorlofs og það er ánægjulegt að segja að fleiri börn eru að fæðast og fleiri feður taka fæðingarorlof.

Hækkun til málefnasviðs nýsköpunar, rannsókna og þekkingargreina er 15 milljarðar að raungildi og hlutfallslega er það meira en tvöföldun á tímabilinu. Sýnir það glögglega áherslur ríkisstjórnarinnar sem hefur sérstaklega hækkað framlög til sviðsins. Framlög í samkeppnissjóði hafa stóraukist auk þess sem endurgreiðsla rannsókna- og þróunarkostnaðar fyrirtækja hefur margfaldast.

Framlög til samgöngumála aukast um 15 milljarða þrátt fyrir lækkun í frumvarpinu 2022 frá fyrra ári. Það sýnir hvað ríkisstjórnin hefur frá 2017 stóraukið framkvæmdir í vegakerfinu, svo sem með áðurnefndu fjárfestingarátaki.

Heilbrigðisþjónusta utan sjúkrahúsa hækkar um 13 milljarða eða um 25%. Skýrist það alfarið af mikilli styrkingu heilsugæslunnar á síðastliðnum árum, auk þess sem mjög hefur verið dregið úr greiðsluþátttöku þeirra sem sækja þjónustu heilsugæslunnar og þarna getum við fundið gott yfirlit á bls. 8.

Í frumvarpinu hefur flokkun ríkisaðila verið breytt frá því sem áður var. Ýmsir ríkisaðilar, einkum fyrirtæki og sjóðir sem áður féllu undir svokallaðan B- og C-hluta ríkisins, flokkast nú í A-hluta. Samhliða þeirri breytingu er gert ráð fyrir breytingu á lögum um opinber fjármál til samræmis við nýja flokkun í frumvarpinu. Tilgangurinn er að gæta samræmis við uppgjör Hagstofu Íslands á flokkun ríkisaðila í þjóðhagsreikningum. Þar með telst til A-hluta öll starfsemi og verkefni sem eru fjármögnuð með skatttekjum, lögbundnum þjónustutekjum eða framlögum. Eftir sitja í B-hluta eingöngu þeir ríkisaðilar sem ekki eru sameignar- eða hlutafélög í meirihlutaeigu ríkisins sem starfa á markaði og standa undir kostnaði við starfsemi sína með sölu á vörum og þjónustu til almennings og fyrirtækja. Til C-hluta teljast aðilar sem afla tekna með sama hætti og B-hlutinn en eru sameignar- eða hlutafélög í meirihlutaeigu ríkisins. Að auki telst Seðlabanki Íslands til C-hlutans. Í greinargerð frumvarpsins koma fram ítarlegar skýringar á þessum breytingum.

Virðulegi forseti. Nefndin hefur kynnt sér forsendur og markmið verkefnis um betri vinnutíma í vaktavinnu og fjármögnun þeirra breytinga. Þær helstu eru að vinnuvika vaktavinnufólks í fullu starfi styttist úr 40 klukkustundum í 36 og frekari stytting í 32 klukkustundir er möguleg. Markmið breytinganna er að stuðla að betri heilsu og öryggi starfsfólks og auka möguleika þess á að samþætta betur vinnu og einkalíf. Breytingarnar ættu að stuðla að meiri stöðugleika í mönnun stofnana, draga úr þörf og hvata fyrir yfirvinnu og bæta starfsumhverfi og gæði opinberrar þjónustu.

Styttingin myndar sannarlega mönnunargat sem kallar á fleiri stöðugildi ef halda á sömu þjónustu og verið hefur. Kostnaðarmat tekur mið af þessu og áætlaður heildarkostnaður nemur ríflega 5 milljörðum á ársgrundvelli. Miðast það við ríkisstarfsmenn, þó aðallega heilbrigðisstarfsfólk og löggæslu, en einnig starfsmenn hjúkrunarheimila. Gert er ráð fyrir að hægt verði að nýta útgjaldasvigrúm heilbrigðisráðuneytisins sem er til staðar í fyrirliggjandi fjármálaáætlun upp í þennan kostnað en endanleg kostnaðar- og hagræðingaráhrif af verkefninu eru enn óljós og skýrast ekki fyrr en seint á næsta ári. Af þeim sökum eru settar á varasjóð fjárheimildir til að mæta þessum kostnaði.

Fram kom fyrir fjárlaganefnd að áætlanir um opinberar fjárfestingar hafi ekki gengið jafnhratt og ætlað var og því mikið af fjárfestingarheimildum fært á milli ára. Samkvæmt samgönguyfirvöldum eru ýmsar ástæður fyrir því að töluverð óvissa er um fjárflæði til framkvæmda í vega- og brúargerð. Um er að ræða langan undirbúningstíma með rannsóknum, hönnun, samningum við landeigendur, útboðsferli og leyfisferli tengdu skipulagi, mati á umhverfisáhrifum og framkvæmdaleyfi. Þá er framvinda framkvæmda við vega- og brúargerð verulega háð árstíðum. Þess ber að geta að framkvæmdaáætlun höfuðborgarsáttmálans hefur raskast verulega vegna framangreindra atriða.

Sveitarfélagið Bláskógabyggð benti á að það gæti ekki haldið áfram með sína skipulagsvinnu þar sem Vegagerðin hefði ekki gert umhverfismat vegna færslu Biskupstungnabrautar við Geysi og vegna Kjalvegar. Vegna eðlis samgönguframkvæmda hefur verið hægt að flýta öðrum vegaframkvæmdum til að halda uppi framkvæmdastigi í samræmi við fjárheimildir. Við viljum beina því til Vegagerðarinnar að huga að nauðsynlegum undirbúningi framkvæmda eins og umhverfismati, hönnun og leyfisveitingum. Fjármála- og efnahagsráðuneytið vinnur nú að gerð langtímaáætlana í opinberum framkvæmdum með það að markmiði að gera þær hagkvæmari og skilvirkari í framkvæmd. Meiri hluti fjárlaganefndar telur mikilvægt að slíkar úrbætur gangi eftir til að opinberar framkvæmdir verði hagkvæmari og að áætlanir standist í tíma.

Ég vil víkja aðeins að skilavegum. Um er að ræða skilavegi sem Vegagerðinni var gert heimilt samkvæmt ákvæði til bráðabirgða í vegalögum, nr. 80/2007, að semja um við sveitarfélög að flytja úr flokki stofnvega yfir til sveitarfélaganna með samningi. Áttu viðkomandi samningar upphaflega að taka gildi fyrir árslok 2019 en vegna samningsleysis var heimildin framlengd til ársloka þessa árs. Það þarf að ná samkomulagi um nokkur atriði og við mælum með því hér eftir atvikum og segjum frá því að til þess geti komið að millifæra þurfi fjármagn til veghalds frá Vegagerðinni til viðkomandi sveitarfélaga. Í erindum til fjárlaganefndar kom fram að samningarnir um ástand veganna séu langt komnir en að tryggja þurfi að fjármagn sé til staðar til að koma þeim í viðunandi ástand en óleyst og órætt sé um veghaldið. Meiri hluti fjárlaganefndar beinir því til samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins að leysa úr þessum málum svo að vegir sem falla undir það að vera skilavegir verði þjónustaðir frá og með 1. janúar næstkomandi.

Framlag til almenningssamgangna hækkar um 150 millj. kr. Framlaginu er ætlað að stuðla að umhverfisvænni almenningssamgöngum og breyttum ferðavenjum til að ná árangri í loftslagsmálum. Í yfirliti 6 með fylgiriti fjárlaga er ekki tilgreindur stuðningur við áætlunarakstur á höfuðborgarsvæðinu á næstu árum. Við fengum þó svör frá ráðuneytinu sem voru á þá leið að ekki stæði til að hætta þeim stuðningi enda fjármagn til staðar í málaflokkinn, en enn hefði ekki tekist að ganga frá samningi þess efnis. Meiri hlutinn hvetur til þess að gengið verði frá slíkum samningi í samræmi við samkomulag þar um frá 26. september 2019.

Virðulegi forseti. Setja þarf aukinn kraft í verkefni Stjórnarráðsins um markvisst endurmat útgjalda og stafræna þróun. Hvort um sig ætti að stuðla að skilvirkari nýtingu opinbers fjár án þess að koma niður á mikilvægi grunnþjónustu. Meiri hlutinn væntir þess að sjá árangur af þeirri vinnu strax við vinnu fjármálaáætlunar.

Í kjölfar greiningarvinnu nefndarinnar við yfirferð á umsögnum og svörum ráðuneyta við spurningum nefndarinnar eru gerðar allnokkrar breytingartillögur við frumvarpið og þá hefur ný ríkisstjórn komið með fjölmargar tillögur til nefndarinnar til umfjöllunar. Breytingar á tekjuhlið eru nokkrar en óverulegar í samanburði við margar tillögur á gjaldahliðinni. Einnig eru gerðar tillögur til breytinga á 5. gr. sem fjallar um lántökur, endurlán og ríkisábyrgðir og 6. gr. sem fjallar um heimildir ráðherra til að kaupa og selja fasteignir, lóðir, jarðir og hlutabréf. Í töflunni á bls. 11 sést heildarumfang allra breytingartillagna á gjaldahlið og í kjölfarið fylgir stutt umfjöllun um þau málefnasvið og málaflokka þar sem allra veigamestu breytingarnar koma fram. Allar þessar breytingartillögur á gjaldahlið eru einnig skýrðar aftast í nefndarálitinu.

Mig langar rétt í lokin að tæpa á nokkrum atriðum í þessum breytingartillögum. Það er m.a. nýsköpun, rannsóknir og þekkingargreinar. Þar vegur langmest 1.259 millj. kr. hækkun endurgreiðslu til rannsókna- og þróunarkostnaðar en ég vil líka vekja athygli á því að það eru nokkrir minni styrkir, svo sem til nýsköpunarmiðstöðvarinnar Hraðsins og til nýsköpunarvirkni fatlaðra einstaklinga og svo margra annarra.

Í orkumálum finnst okkur, einhverjum alla vega, veigamesta breytingartillagan felast í 247 millj. kr. framlagi til hækkunar á jöfnunarkostnaði raforku í dreifbýli af því að markmiðið er að með þessu náist 100% jöfnun. Jafn dreifikostnaður orku óháð búsetu er ein forsenda byggðaþróunar og jafnra búsetuskilyrða og atvinnutækifæra á landsvísu.

Undir lið 18, menningu, listum, íþrótta- og æskulýðsmálum, gerum við fjölmargar breytingartillögur til þess að styrkja bæði einstök söfn og menningarstarfsemi víða um land, auk þess sem bætt er í myndlistarsjóð, sviðslistasjóð og tónlistarsjóð svo að framlögin eru á pari við það sem þau voru 2020.

Meiri hlutinn leggur líka áherslu á að mikilvægt er að svigrúm verði tryggt innan framhaldsskólakerfisins til að mæta auknum þörfum atvinnulífsins og fjölbreyttari vinnumarkaði, sem er í samræmi við áherslur í stjórnarsáttmála um að auka aðgengi og fjölbreytni náms sem og að efla iðn- og tækninám um land allt.

Mig langar að koma aðeins inn á breytingartillögu sem er í lið 23, sjúkrahúsþjónustu. Þar vegur þyngst 849 millj. kr. framlag til almennrar sjúkrahúsþjónustu þar sem ákveðið hefur verið að fjölga sjúkrarýmum hjá heilbrigðisstofnunum á Suðurlandi og á Suðurnesjum til að létta álagið á Landspítalanum. Tillögurnar gera líka ráð fyrir um 750 milljóna kr. hækkun til Landspítalans frá frumvarpinu og er það fyrst og fremst vegna lyfjakostnaðar. Þá er fjárheimild spítalans komin í 90 milljarða og hækkar um rétt tæpa 10 milljarða frá fjárlögunum 2021 eða um 12%. Hækkunin er sannarlega til komin vegna mikilla og aukinna verkefna, svo sem reksturs hágæslurýma og endurhæfingarrýma á Landakoti, í samræmi við viðbúnað heilbrigðiskerfisins við heimsfaraldrinum. Þar að auki hefur spítalinn fengið fulla fjármögnun í frumvarpi til fjáraukalaga á öllum viðbótarkostnaði vegna heimsfaraldursins.

Á undanförnum árum hefur spítalinn fengið sérstakar fjárveitingar sem nema um 1,8% árlegri hækkun til að vega upp á móti öldrun þjóðarinnar. Nú gengur sú raunhækkun framlags upp á móti áætluðum kostnaði við verkefnið um bættan vinnutíma vaktavinnufólks.

Virðulegi forseti. Við höfum fengið upplýsingar um að eitthvert misræmi sé í tölum, sem okkur var að berast bara áðan, varðandi stöðuna á liðum heilbrigðisráðuneytisins þannig að við munum afla okkur upplýsinga um það milli umræðna.

Í frumvarpinu er líka talað um og lagðar til 1.000 milljónir til að styrkja rekstrargrunn hjúkrunarheimila. Það er í framhaldi af skýrslu starfshóps um greiningu á rekstri stofnana og mikið búið að kalla eftir því til þess að styrkja daggjaldagrunn þeirra. Þar að auki er gert ráð fyrir kostnaðarauka vegna verkefnisins um betri vinnutíma í vaktavinnu, 1.200 milljónum sem eru teknar af varasjóði fjárlaga til handa hjúkrunarheimilum.

Meiri hlutinn vill beina því til heilbrigðisráðherra að yfirfara fyrirkomulag lyfjakaupa og leita hagræðingar, svo sem að skoða kosti þess að heimila í meira mæli notkun samheitalyfja. Í áliti meiri hluta fjárlaganefndar síðastliðið vor kom fram ábending um að endurskoða fyrirkomulag lyfjakaupa hjúkrunarheimila og láta lyfjakaup íbúa heimilanna falla að almennu fyrirkomulagi stuðnings við lyfjakaup. Það eitt og sér myndi jafna rekstur hjúkrunarheimila og stöðu þeirra.

Síðan er það Fæðingarorlofssjóður, eins og ég nefndi. Hann hækkar um tæplega 1,6 milljarða þar sem, eins og ég áréttaði áðan, fæðingar hafa verið óvenjumargar á yfirstandandi ári og stefnir í að metið frá 2010, þ.e. 11 ára gamalt, verði slegið nú í ár.

Svo er hér stór liður sem er 3,4 milljarða framlag vegna ráðningarstyrkja en tæplega 40% styrkjanna eru vegna nýrra úrræða sem tengjast átakinu Hefjum störf en 60% eru vegna hefðbundinna ráðningarstyrkja. Reyndist ásókn í þá vera mun meiri en gert var ráð fyrir og viðbótarheimild er til komin vegna þeirra.

Virðulegi forseti. Meiri hlutinn leggur til að þetta frumvarp verði samþykkt með þeim breytingum sem gerð eru skil í nefndaráliti og sérstökum þingskjölum og gangi síðan til 3. umr.