152. löggjafarþing — 15. fundur,  21. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[21:17]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Forseti. Hv. formaður fjárlaganefndar segir að allir geti sótt um. Nú er það þannig og var síðastliðið kjörtímabil að þegar styrkbeiðnir bárust frá einstökum aðilum var svarið: Leitið til ráðuneytanna. Því var vísað áfram til ráðuneytanna. Það er það sem allir bjuggust við að væri enn við lýði þannig að væntanlega sóttu þeir um til ráðuneytanna og fengu eða fengu ekki. Við vitum það ekki. Við sjáum það ekki fyrr en það birtist í fjárlögum eða við köllum sérstaklega eftir því, sem er svo sem nægilega óþægilegt upp á það að gera. Ég er hér að tala um gagnsæi þingsins. Það er ekkert aðgengilegt að fara í gegnum einhvern kanal í ráðuneytinu eftir á, eftir að búið er að samþykkja þessar fjárheimildir, af því að í þessum breytingartillögum eru þær örfáu milljónir til eða frá ekki listaðar upp. Þegar maður les nefndarálitið og les í rauninni fjárlögin þá hefur maður ekki hugmynd um að ætlunin var að setja einhverjar 3 milljónir hingað, 3,5 milljónir þangað o.s.frv. Hvernig á þá ráðuneytið að vita (Forseti hringir.) að þær fjárheimildir sem — hvaðan koma skilaboðin um að þær 5 milljónir eiga að fara í þetta verkefni?