152. löggjafarþing — 15. fundur,  21. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[21:32]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Nú er útlit fyrir að 2. umr. fjárlaga eigi að fara fram í skjóli nætur. Ég vil því leita atbeina forseta til að komast að því hversu lengi forseti hyggst halda okkur hér til að ræða þetta mikilvæga mál inn í nóttina. Ég verð að segja sú ákvörðun hæstv. forseta Birgis Ármannssonar að hefja 2. umr. fjárlaga klukkan níu að kvöldi á sér ekki fordæmi síðastliðin ár. Mér varð reyndar hugsað til að þess að við hæstv. fyrrverandi forseti, Steingrímur J. Sigfússon, áttum ekki alltaf skap saman en hann má eiga það að hann lét sér aldrei detta í hug að hefja 2. umr. fjárlaga eftir kvöldmat. Þetta er gríðarleg vanvirðing við flutningsmenn nefndarálita. Það er gríðarleg vanvirðing við hlutverk Alþingis sem málstofu að við ræðum fjárlög ríkisins, 2. umr., hérna langt fram á nótt. Ég fer fram á það við forseta að hann upplýsi okkur um hversu lengi eigi að halda okkur hér inn í nóttina.