152. löggjafarþing — 15. fundur,  21. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[21:36]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég rifjaði upp mér til skemmtunar hvernig 2. umr. fjárlaga var háttað á 146. og 148. þingi þegar við vorum einmitt í sömu tímapressu og núna. Þá reyndar vegna þess að það varð að boða til kosninga á óþægilegum tíma en ekki vegna sjálfstæðrar og meðvitaðrar ákvörðunar ríkisstjórnarinnar um að búa til tímapressu eins og núna. Þá var nefnilega minni tími til stefnu. Umræðan átti sér stað 22. desember í bæði skiptin, 22. desember er einmitt á morgun, ekki í dag. Hún byrjaði bara á hádegi, byrjaði tíu mínútur yfir tólf árið 2017, þegar hana vantaði 20 mínútur í eitt árið 2016. Það er nefnilega þannig sem við sýnum lýðræðinu virðingu, með því að nota þessa málstofu ekki um nótt heldur að degi til þannig að öll geti tekið þátt, þannig að öll úti í samfélaginu geti fylgst með. (Forseti hringir.)

Frú forseti. Ég legg til að þessi forkastanlega dagskrá verði endurskoðuð og við hittumst hér í fyrramálið. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)