152. löggjafarþing — 15. fundur,  21. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[21:45]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Eins og þetta snýr við mér er málið tvíþætt. Í fyrsta lagi er náttúrlega óboðlegt að ræða þetta mikilvæga mál á næturnar. Við vitum að fleiri þúsund manns horfa á þessa rás og hafa áhuga á að fylgjast með þessari umræðu vegna þess að þetta eru veigamestu lög sem við setjum á hverju kjörtímabili. Þau skipta máli.

Þetta snýr náttúrlega bara að virðingu gagnvart vinnuskilyrðum einstakra þingmanna. Ég bendi frú forseta á að ég er sjötti á mælendaskrá, sem þýðir að ég mun tala hér að óbreyttu klukkan fimm í nótt og á svo að mæta á fund hjá allsherjar- og menntamálanefnd klukkan hálfníu og annan utanríkismálafund klukkan hálftíu. Ég er ekki viss um að það verði allt alveg jafn yfirvegað og best hefði verið á kosið. Nú er fyrsti forseti þingsins kominn í frí, væntanlega, og ég legg til að starfandi forseti, sú sem verður starfandi nú á næstu dögum, taki málið upp og ræði þetta að nýju, og það verði sjálfstæð ákvörðun frú forseta að tala við stjórnarandstöðuna um fyrirkomulagið á næstu klukkutímum. (HVH: Heyr, heyr.)