152. löggjafarþing — 15. fundur,  21. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[21:47]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Eyjólfur Ármannsson) (Flf) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Fyrir mig sem nýliða á þingi er fjarvera stjórnarþingmanna í allri umræðu það undarlegasta við vinnubrögðin; þeir sjást hreinlega ekki og það er engin umræða milli stjórnarandstæðinga og stjórnarliða. Það eru eiginlega bara stjórnarandstæðingar sem tala. Annað er: Hvar eru ráðherrarnir? Hvar er fjármálaráðherra? Við vorum að ræða fjáraukann í dag og fjármálaráðherra sást ekki. Nú erum við að fara að tala undir kvöld, klukkuna vantar tíu mínútur í tíu, og fjármálaráðherra sést ekki. Þetta er alveg stórundarlegt.

Annað sem er mjög skrýtið er vinnutíminn. Eigum við að fara að ræða þetta mál, fjárlagafrumvarpið, til klukkan hvað? Fimm, sex í nótt? Mikilvægustu löggjöf Íslands á hverju ári, kveðið er á um það í stjórnarskránni. Og svo má lengi telja. Ég er að fara á fund ásamt fleirum í menntamálanefnd, mikilvægan fund, í fyrramálið klukkan hálfátta. Ég fór á fund klukkan tíu í morgun og er enn að, og það virðist vera að tæpur helmingur þingsins mæti í þingsal til að ræða málið. Jú, stjórnarþingmenn mæta á nefndafundi og svoleiðis, en svo hverfa þeir. Það komu ráðherrar hér inn áðan, greiddu atkvæði og fóru svo heim. Þannig gengur það fram og til baka. Ég meina, það mætti gefa stórum hluta þingsins frí. Við myndum bara sjá um þetta hér í þingsalnum, stjórnarandstæðingarnir. Það væri langeinfaldast. Ég vil líka benda á að verið er að tala um betri vinnutími í vaktavinnu. Það eru stórkostleg fjárútgjöld, 1,2 milljarðar sem fara t.d. í hjúkrunarheimilin. Manni dettur í hug: Hver er vinnutíminn hér? (Forseti hringir.) En ég óska eftir því, það væri mjög fróðlegt, að a.m.k. fjármálaráðherra (Forseti hringir.) verði viðstaddur umræðu um fjárlög. (Forseti hringir.) Það væri til bóta.

(Forseti (LínS): Hv. þingmönnum er bent á að virða tímamörk.)