152. löggjafarþing — 15. fundur,  21. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[21:55]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Af hverju er verið að brjóta alla hefð sem er í kringum umræðu um fjárlög með því að ætla að halda hana í skjóli nætur, að byrja 2. umr. fjárlaga klukkan níu að kvöldi? Af hverju? Og af hverju eru stjórnarþingmenn — ja, ekki í skjóli heldur í felum, eins og þeir hafa verið frá þingsetningu? Mér fannst nú hressileg tilbreyting að sjá þingmann Vinstri grænna stíga í pontu í fyrsta sinn í 19 daga til að tjá sig um stjórnarmál. Það hefur ekkert gerst síðan 2. desember, sem var reyndar líka í fjárlögum. Hv. þm. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir er eini þingmaður flokks forsætisráðherra sem hefur tjáð sig efnislega um eitt einasta stjórnarmál það sem af er kjörtímabili. (Forseti hringir.) Þetta er sorgleg þróun, frú forseti, og ég vona að hér verði gert hlé á fundi hið snarasta (Forseti hringir.) til að við getum unnið hlutina almennilega í fyrramálið.