152. löggjafarþing — 15. fundur,  21. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[22:03]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Ég ætla nú ekki að trufla, séu þingflokksformenn og forsetar tilbúnir að setjast niður og reyna að finna út úr því hvort ekki sé skynsamlegt að halda hérna áfram. Allir hafa jú vitað mjög lengi að við værum í tímaþröng að klára þessi mál. Nú ætla ég ekki að hljóma eins og gamall maður sem hefur setið hér í 100 ár en ég verð að segja alveg eins og er að ég er búinn að heyra hér raddir stjórnarandstöðunnar í hverju málinu á fætur öðru þar sem þau koma upp og kvarta yfir því að það skorti einhverja aðra úr stjórninni til þess að tala við og jafnvel halda einhverja málaskrá yfir það hverjir mæta hér í púltið og hverjir ekki og tala jafnvel um að klukkan tíu sé komin mið nótt. Ég verð að segja alveg eins og er að á þessum tíma ársins, þar sem er hefðbundið að við séum hér að takast á við þessi stóru mál, er klukkan tíu bara miður dagur. Einu sinni sat sá sem hér stendur í þessum stól milli fjögur og sex um morgun og stýrði fundi einmitt um 2. umr. fjárlaga og mætti síðan á nefndarfund klukkan korter yfir átta daginn eftir og þótti það bara ekki tiltökumál. Og þykir það heldur ekki tiltökumál árið 2021 þótt það hafi ekki verið til eftirbreytni hvernig það var þá. (Forseti hringir.)

Þannig að ég legg nú til að við höldum áfram þessari umræðu, en ég geri ekki athugasemdir við að menn reyni að finna einhvern samkomulagsflöt á því sé það hægt, af því að tíminn er búinn og áramótin koma og við vitum að við verðum að klára fjárlög. (Forseti hringir.) Við vitum það öll.