152. löggjafarþing — 15. fundur,  21. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[22:04]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V) (um fundarstjórn):

Forseti. Ég verð nú eiginlega alveg standandi bit eftir þessa innkomu hæstv. ráðherra til að reyna að ná sátt og samkomulagi. Þeir koma galvaskir eins og brennuvargar á gamlárskvöldi með olíuföt til að hella á eldinn. [Hlátur í þingsal.] Þetta er ekki til mikillar eftirbreytni og ekki vænlegt til árangurs. En sem betur fer ætla þingflokksformennirnir að fara að hittast og ræða málin og þessir ágætu herramenn koma þar hvergi nærri. [Hlátur í þingsal.] Ég vona að þeir láti okkur í friði og við munum finna út úr þessu sjálf. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)