152. löggjafarþing — 15. fundur,  21. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[23:54]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er ekki rétt hjá hv. þingmanni að það hafi ekki komið tillögur frá ráðuneytunum til fjármálaráðuneytisins. Þar var enginn skortur á því, alveg gríðarlega margar tillögur og langt umfram það sem hefði samrýmst þeirri fjármálastefnu sem ríkisstjórnin leggur fyrir þingið. Við getum auðvitað aldrei haft það þannig að ráðherrarnir séu bara að skammta sjálfum sér þær heimildir sem þá dreymir um að fá og fjármálaráðherrann verði við þeim hugmyndum. Það færi algjörlega gegn megintilganginum með lögum um opinber fjármál. Það sem við gerum er að við ástundum rammafjárlagagerð, sem gefur fagráðherrunum mikið svigrúm til að ráðstafa því heildarfjármagni sem þeir hafa til málaflokkanna og samræma það inn í sína tillögugerð. Svo er það þingsins að taka afstöðu til þess hvað við ætlum að setja mikið á bak við hvert málefnasvið og einstaka málaflokka. Það er eina leiðin til þess að hafa stjórn á útgjöldum innan ársins.