152. löggjafarþing — 15. fundur,  22. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[00:22]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Í forföllum forseta ganga varaforsetar að öllu leyti í hans stað. Svo segir í 8. gr. laga um þingsköp. Nú háttar svo til að Birgir Ármannsson er að eigin sögn, það kemur fram í viðtali við Fréttablaðið, með einkenni eftir að hafa greinst með Covid. Hann er í einangrun í kjallara heima hjá sér. Þar þarf hann samkvæmt sóttvarnalögum að vera innilokaður í 10–14 daga hið minnsta. Hann getur ekki stýrt þinginu það sem eftir er fram að áramótum. Það er bara einn forseti sem getur gert það. Það er bara einn forseti sem getur borið ábyrgð á samtalinu á milli þingflokka til að ljúka störfum með sóma og það er hæstv. forseti Líneik Anna Sævarsdóttir. Birgir Ármannsson getur ekki fjarstýrt því sem er að gerast hér og sér í lagi ekki þegar samskiptin á milli flokka, vegna óbilgirni þingflokksformanna stjórnarflokkanna, ganga jafn illa og raun ber vitni. Einhver þarf að stýra þessu partíi. Líneik Anna Sævarsdóttir þarf að gera það.